149. löggjafarþing — 57. fundur,  24. jan. 2019.

Brexit.

[10:52]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Mér þykir heldur skuggsýnt yfir þingsalnum í dag. Vandræðagangur Breta við að koma sér saman um hvernig skuli ganga úr Evrópusambandinu er tragikómískur. Útgöngusamningurinn var kolfelldur og nú er hver höndin upp á móti annarri og enginn veit hvernig því máli lyktar og því síður hver áhrifin verða á samskipti Bretlands og Íslands, og þó. Hæstv. utanríkisráðherra hefur oftar en ekki látið að því liggja að í Brexit felist mikil tækifæri fyrir Ísland. Vandséð er reyndar hver þau tækifæri eru að mati þess sem hér stendur.

Um miðjan október sl. lagði ég fram skriflegar fyrirspurnir til hæstv. utanríkisráðherra um stöðu íslenskra borgara í Bretlandi eftir Brexit og með sama hætti hæstv. dómsmálaráðherra um stöðu breskra ríkisborgara hér á landi. Hvorugri hefur verið svarað. Það þykir mér harla undarlegt í ljósi þess að bæði hæstv. utanríkisráðherra og hæstv. forsætisráðherra hafa látið hafa eftir sér að gagnkvæm réttindi hafi verið tryggð með eða án útgöngusamnings.

Í fréttatilkynningu frá utanríkisráðuneytinu frá því 20. desember sl. segir, með leyfi forseta:

„Pólitískt samkomulag ríkir þó á milli Íslands og Bretlands um að tryggja gagnkvæman rétt borgara til áframhaldandi búsetu eftir útgöngu, jafnvel þótt Bretland gangi úr ESB án samnings.“

Ég spyr því hæstv. utanríkisráðherra hvers vegna hann treystir sér ekki til að svara skriflegri fyrirspurn minni. Liggja ekki fyrir samningar og loforð milli Breta og Íslendinga um þessi mál?

Að síðustu: Taka þessi loforð og samningar til borgara sem hyggjast setjast að í löndunum í (Forseti hringir.) framtíðinni eða einungis þeirra sem þegar eru búsettir í löndunum?