149. löggjafarþing — 57. fundur,  24. jan. 2019.

Brexit.

[10:58]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegur forseti. Það verður fróðlegt að sjá hvort hv. þingmaður muni halda því aftur fram að það sé ekkert mál að ganga út úr Evrópusambandinu ef menn ganga inn. Það verður mjög fróðlegt að fylgjast með því á næstunni.

Fjölþjóðlegt samstarf og fjölþjóðlegt samstarf er ekkert það sama. Ég vonast til þess að hv. þingmaður sé ekki fylgjandi því að við göngum í allt það fjölþjóðlega samstarf sem er til. Menn þurfa auðvitað að skoða hvað það felur í sér. Hv. þingmaður vísaði til hluta sem við getum ekki ráðið við. Við munum ekki ráða því hvernig viðskilnaður verður á milli Breta og Evrópusambandsins. Okkar lína hefur alltaf verið skýr, bæði gagnvart vinum okkar í Evrópusambandinu og Bretum, að ef viðskiptahindranir verða eftir viðskilnaðinn munu allir tapa á því, þar með talið við. Það liggur alveg fyrir. Það er enginn sigurvegari í því ef einhverjar viðskiptahindranir verða eftir.

En ég ber hvorki ábyrgð á samningum né samningsuppleggi Evrópusambandsins eða Breta í þessum viðræðum og get ekki stýrt því. Það sem við höfum gert, virðulegur forseti, og sem við höfum farið yfir bæði á opinberum vettvangi, í utanríkismálanefnd og í þinginu, er að kortleggja okkar hagsmuni og reynt að búa okkur undir allar þær stöður sem geta komið upp. Við reynum að tryggja íslenska hagsmuni (Forseti hringir.) eins vel og mögulegt er við hverjar þær aðstæður sem upp koma. (Forseti hringir.) Ég held að það hafi verið hárrétt ákvörðun að setja það í forgang þó að sumir aðilar hafi ekki stutt það neitt sérstaklega.