149. löggjafarþing — 57. fundur,  24. jan. 2019.

endurgreiðsla vegna ólöglegra skerðinga TR.

[11:02]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Eins og ég sagði í svari við fyrirspurn frá hv. þm. Halldóru Mogensen er Tryggingastofnun að vinna að þeim málum og mun kynna útfærslu á því innan tíðar, eins og komið hefur fram á heimasíðu stofnunarinnar og á opinberum vettvangi.

Óhætt er að segja að það er alveg rétt að það sem unnið er með þar eru fjögur ár. Þar er stuðst við almenn lög. Þetta var m.a. kynnt á fundi velferðarnefndar í gær.

En Tryggingastofnun er að fara yfir málið og átta sig á umfangi þess, fara yfir þær fjárveitingar sem stofnunin hefur og undirbúa tímalínu. Í því sambandi er allt í lagi að segja frá því hversu mikinn tíma það getur tekið að hafa uppi á hverjum og einum. Ekki er hægt að keyra út leiðréttingar á þessu með einfaldri keyrslu hjá Tryggingastofnun heldur þarf að hafa samband við hvern einstakling. Síðan þarf að hafa samband við systurstofnanir Tryggingastofnunar í öllum þeim löndum sem þeir einstaklingar hafa búið í, kalla eftir upplýsingum þaðan, fá það allt saman til Íslands, ræða svo aftur við viðkomandi, fara yfir málið og reikna handvirkt út hvern einstakling.

Í því sambandi hefur Tryggingastofnun bent á að það að fá svör frá systurstofnunum okkar í Skandinavíu, eins og Noregi, getur tekið allt upp undir átta mánuði. Það er því í mörg horn að líta. Málið er gríðarlega flókið af því að þetta hefur verið framkvæmt á þennan hátt í mjög langan tíma, eins og hv. þingmaður benti á.

Þá má benda á að umboðsmaður tók tvö ár í að úrskurða um málið. Það er því (Forseti hringir.) mikilvægt að vanda sig þótt þetta taki einni vikunni lengur en skemur þannig að það sé rétt þegar það verður gert.