149. löggjafarþing — 57. fundur,  24. jan. 2019.

endurgreiðsla vegna ólöglegra skerðinga TR.

[11:06]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég ítreka það sem ég rakti áðan, að það er ekki einfalt mál að leiðrétta þetta aftur í tímann vegna þess að okkur ber að taka tillit til þess sem viðkomandi hefur fengið greitt í öðrum löndum sem hann hefur búið í. Það er handavinna að kalla eftir slíku vegna þess að það liggur ekki fyrir í grunnum Tryggingastofnunar. Það hefur verið skýrt út. Þess vegna hefur Tryggingastofnun verið að vinna að því að fá fram tímalínu í málinu til að átta sig á því hvað þetta mun taka langan tíma og hefur kynnt það og hefur verið í sambandi við félagsmálaráðuneytið um það.

Eins og ég sagði á fundi velferðarnefndar í gær held ég að það sé mjög mikilvægt að félagsmálaráðuneytið og Tryggingastofnun geti verið í góðu samstarfi við þingið, við velferðarnefnd um þetta mál. Vonandi liggur fyrir einhver tímalína í málinu innan nokkurra vikna, eins og Tryggingastofnun hefur sjálf sagt. Þá verður hægt að fara betur yfir hana á vettvangi þingsins, í velferðarnefnd og öðru slíku, vegna þess að það er mikilvægt að við náum að koma þessu máli í réttan farveg (Forseti hringir.) sem fyrst. En eins og ég sagði áðan er líka mikilvægt að við vöndum okkur og gerum það þá rétt í þetta skipti.