149. löggjafarþing — 57. fundur,  24. jan. 2019.

fullgilding á uppfærðum fríverslunarsamningi milli EFTA-ríkjanna og Tyrklands.

499. mál
[11:11]
Horfa

Þorgerður K. Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þetta og líka fyrir að hafa minnst á mannréttindamál í þeim ríkjum sem við erum m.a. að gera fríverslunarsamninga við.

Mig langar að hæstv. ráðherra upplýsi þingheim um hvaða umræða um mannréttindamál í tengslum við Tyrki og í tengslum við aðra fríverslunarsamninga hafi átt sér stað innan ríkisstjórnar. Er möguleiki á að menn staldri aðeins við, fari að hugsa það aðeins betur hverju samningar hafi skilað? Það er iðulega talað um að betra sé að vera í tengslum, halda þeim við efnið sem brjóta mannréttindi sí og æ. En hverju hefur það í raun skilað? Erum við búin að meta það? Getur verið að kominn sé tími til að við Íslendingar endurmetum stöðu okkar og förum markvisst yfir hvaða ríki eru reglulega og reglubundið, sum hver, algerlega markvisst, að brjóta mannréttindi?

Mig langar því að spyrja hæstv. ráðherra: Átti sér stað einhver umræða um þennan samning við Tyrki varðandi þau mannréttindabrot sem eiga sér stað í Tyrklandi undir stjórn Erdogans? Og þá væri líka fróðlegt að vita, ef sú umræða hefur átt sér stað, í hvaða veru hún er og hvaða sjónarmið hafi verið reifuð vegna þessa.