149. löggjafarþing — 57. fundur,  24. jan. 2019.

fullgilding á uppfærðum fríverslunarsamningi milli EFTA-ríkjanna og Tyrklands.

499. mál
[11:17]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Förum bara í efni máls. Það hefur ekki verið deila á milli ríkisstjórnarflokkanna, og ég vona ekki flokka á milli á þingi, þegar kemur að mannréttindum og áherslum varðandi mannréttindi. Bara það að við skyldum vera kosin í mannréttindaráðið sýnir stöðu Íslendinga. Það er starfsemi — ef eitthvað er að marka t.d. samtök eins og Human Rights Watch hafa þau fullyrt að framganga okkar í mannréttindaráðinu hafa haldið aftur af t.d. dauðasveitum Dutertes. Þau skref sem við höfum stigið í þessari ríkisstjórn í mannréttindamálum hafa verið að skila góðum árangri.

Það liggur hins vegar alveg fyrir að mannréttindamál — við vitum miklu meira um mannréttindi núna en við vissum áður. Þrátt fyrir að þau séu í ólestri víða hefur væntanlega aldrei verið betra ástand í mannréttindamálum en núna. Sú stefna þjóða sem við berum okkur almennt saman við, að ýta undir viðskipti á alþjóðavísu — ég held að ekki sé nokkur leið að halda því fram að hún hafi haft slæm áhrif í för með sér þegar kemur að mannréttindum.

Ég og hv. þingmaður erum búin að starfa í þessu í nokkurn tíma. Þegar við byrjuðum var t.d. stór hluti Evrópu á allt öðrum stað en núna. Þegar rofaði til þar sóttust þjóðir í nákvæmlega þau gildi sem við höfðum haldið uppi, sem er auðvitað mjög ánægjulegt, svo að við lítum bara til þjóða sem eru tiltölulega nálægt okkur. Og svo sannarlega sjáum við það sömuleiðis á Íslandi að hér höfum við stigið stór skref í rétta átt, m.a. vegna þess að við höfum verið í samskiptum við aðrar þjóðir og vitum hvað er í gangi þar og við viljum taka upp það sem gerist best annars staðar.

Ég vonast til að samstaða sé um það. Ef við ætlum að fara einhverja allt aðra leið og taka út öll þau lönd sem (Forseti hringir.) við erum ekki ánægð með í mannréttindamálum þegar kemur að viðskiptalista okkar, þá er það mjög langur listi og þar eru kannski lönd sem eru nær okkur en menn kannski ætla í fljótu bragði miðað við umræðuna.