149. löggjafarþing — 57. fundur,  24. jan. 2019.

fullgilding á uppfærðum fríverslunarsamningi milli EFTA-ríkjanna og Tyrklands.

499. mál
[11:22]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni sömuleiðis fyrir andsvarið. Bara svo það sé sagt: Þegar kemur að Tyrklandi, og ég ætla ekki að fara í gegnum það allt saman, höfum við margoft tekið stöðu með mannréttindamálum þar á öðrum vettvangi. Sömuleiðis erum við að setja mannréttindakafla inn í þessa samninga á vegum EFTA til að vekja athygli á þeim.

Hv. þingmaður segir, sem ég held að við höfum trúað öll, alla vega fyrir 20 árum, að yrði niðurstaðan, við trúðum því að mannréttindi, réttarríkið, lýðræði væru forsendur efnahagslegrar velmegunar. Það eru hins vegar önnur dæmi í heiminum núna. Menn hafa náð efnahagslegri velmegun. Ég hef það fyrir reglu á öllum mínum tvíhliða fundi með löndum þar sem er mikill skortur á mannréttindum að taka þau mál sérstaklega upp. Mér var iðulega bent á það þegar talað var við forsvarsmenn Alþýðulýðveldisins Kína að hluti mannréttinda hlyti að felast í því að koma fólki úr sárustu fátækt. Þeir nefna: Við erum búin að taka 800 milljónir úr sárustu fátækt, stóran hluta þeirra inni í millistétt, svo maður fari yfir sjónarmið þessara aðila.

Svo getum við velt fyrir okkur: Eru meiri líkur á því, af því að okkur fannst ýmislegt vanta upp á mannréttindamálin í því stóra og öfluga efnahagsveldi sem er að verða stærsti efnahagsveldi heimsins, að með auknum samskiptum, m.a. á sviði viðskipta, aukist þar mannréttindi og lýðræði eða ekki? Þetta er spurning sem er sjálfsagt að velta upp.

Ef við komumst að þeirri niðurstöðu að það sé ekki svo, þá snýr sú breyting ekki bara að EFTA, það snýr náttúrlega m.a. að Alþjóðaviðskiptastofnuninni. Hugmyndin með Alþjóðaviðskiptastofnuninni og GATT þar á undan var að hafa viðskiptaumhverfi þar sem við værum með algerlega fjölþjóðlegt samstarf, þar sem við værum með flestar ef ekki allar þjóðir undir. Svo eru ákveðnar undantekningar eins og Norður-Kóreu og Suður-Afríku á sínum tíma, sem menn tóku alveg sérstaklega fyrir og var sátt um það í alþjóðasamfélaginu(Forseti hringir.) út af mannréttindabrotum. (Forseti hringir.)

Við værum að tala um mjög róttækar breytingar (Forseti hringir.) ef við breyttum frá þeirri leið sem við höfum verið á fram til þessa.