149. löggjafarþing — 57. fundur,  24. jan. 2019.

fullgilding á uppfærðum fríverslunarsamningi milli EFTA-ríkjanna og Tyrklands.

499. mál
[11:29]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Hér hefur verið minnst á mannréttindi. Það er mikið rétt að hálf heimsbyggðin, og ríflega það kannski, hefur áhyggjur af mannréttindum og mannréttindabrotum í Tyrklandi þar sem Erdogan og flokkur hans stjórna með verulega neikvæðum hætti, svo mildilega sé komist að orði. Ég vil minna á annað sem líka hefur vakið spurningar og gagnrýnt, það er innrás Tyrkja í Sýrland, og umræður jafnvel milli stórvelda um að þeir helgi sér þar einhvers konar öryggissvæði og hirði þar með sneið af landinu. Allt eru þetta atriði sem valda manni áhyggjum.

En ég ætla aðeins að minnast á að mannréttindabrot í Tyrklandi beinast mjög svo harkalega Kúrdum. Við fengum heimsókn þriggja Kúrda til utanríkismálanefndar fyrir ekki löngu síðan, og eins voru þeir hér til að gera grein fyrir máli sínu á opinberum vettvangi. Allt sem þar sást og heyrðist um var stórlega dapurlegt og sýnir að það er í raun og veru verið að ganga illilega fram gagnvart þessum risastóra, við skulum segja minnihlutahópi, þetta er þjóð. Kúrdar dreifast á milli fimm til sex landa, en þeir eru flestir í Írak og Tyrklandi. Þeir eru ekki á þeim buxunum að stofna eitt ríki, ef marka má þeirra aðalstjórnmálaflokka, heldur að fá aukna sjálfsstjórn, hver hópur í sínu heimaríki.

Á þeim eru sem sagt brotin mannréttindi. Það eru skipulagðar aðfarir gegn Kúrdum í bæjum og borgum, bæði innan Tyrklands og núna í Sýrlandi. Það er helst í Írak sem Kúrdar hafa náð sæmilegum árangri í leit sinni að sjálfsstjórn, eða aukinni sjálfsstjórn, skulum við segja.

Ég ætla að nota þetta tækifæri — búið er að ræða hér nauðsyn fríverslunarsamninga og jú, oft er sagt að þeir gætu gagnast um of stjórnvöldum sem brjóta mannréttindi. Og svo á hinn bóginn gætu þeir gagnast andstöðunni í landinu sem vill lýðréttindi og mannréttindi. Talað er um viðskipti milli þjóða og annað. Ég ætla ekki að blanda mér frekar í þá umræðu en vil hvetja sterklega til þess að sérstök áhersla verði lögð á gagnrýni á mannréttindi í Tyrklandi og framkomu þeirra við Kúrda. Það er auðvitað löngu kominn tími til að alþjóðasamfélagið leggi lóð sitt á vogarskálarnar svo mannréttindi og sjálfsstjórn þessarar stoltu þjóðar fái byr undir báða vængi.

Að öðru leyti vísa ég til umræðu í utanríkismálanefnd þar sem ég sit og svo afgreiðslu síðari umr. hér á þinginu. Ég þakka bæði hæstv. ráðherra og þingmönnum fyrir umræðurnar hér á undan.