149. löggjafarþing — 57. fundur,  24. jan. 2019.

fullgilding á uppfærðum fríverslunarsamningi milli EFTA-ríkjanna og Tyrklands.

499. mál
[11:41]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég má til með að kveðja mér hljóðs hér fyrst við erum með formann EFTA-nefndarinnar í ræðu, af því að hann vék ágætlega að aðfaraorðum fríverslunarsamningsins við Tyrkland, sem eru þau sömu og í öllum fríverslunarsamningum sem EFTA gerir þessa dagana. Þar er áréttuð skuldbinding samningsaðila um að styðja við lýðræði, réttarreglur, mannréttindi og mannfrelsi. Þingmaðurinn talaði um að þingið þyrfti að gera sér og ráðuneytinu grein fyrir hvar draga ætti línuna í þessum efnum.

Við getum ákveðið hvar línan er, en hvenær vitum við hvenær farið er yfir hana? Það er nefnilega ýmislegt skilgreint nokkuð skýrt í þessum samningum. Til dæmis er gildissvið í 2. kafla. Þar er vísað í tiltekna kafla samræmdu vörulýsingar- og vöruheitaskrárinnar. Og síðan er heill kafli, 9. kafli, um lausn deilumála, sem snerta þá viðskiptin sem þessi samningur nær til. Þar eru ákvæði um gerðardóm og ýmiss konar ferla sem fara af stað þegar farið er yfir þær línur.

Hvað með aðfaraorðin? Hvað með þessi fallegu orð sem snerta grundvallargildi samfélagsins sem við teljum í orði kveðnu að svona samningar eigi að styðja við? Hvar er gerðardómurinn þegar er farið yfir þær línur? Það þarf ekki einu sinni að tala um gerðardóminn. Hvar er eftirlitið með því? Hvar er eftirlitið með þróun mannréttinda í ríkjum sem fríverslunarsamningar gilda um? Er þetta eitthvað sem taka ætti upp á vettvangi EFTA? Er þetta eitthvað sem skrifstofa EFTA eða aðildarríkin sjálf ættu að setja í fastari farveg þannig að við getum sagt ár frá ári hvernig þróun þessara mála er í hverju ríki fyrir sig?