149. löggjafarþing — 57. fundur,  24. jan. 2019.

fullgilding á uppfærðum fríverslunarsamningi milli EFTA-ríkjanna og Tyrklands.

499. mál
[11:45]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka þingmanninum svarið. Ég held að við þurfum tvímælalaust að fara að þokast í einhverja átt í þessum málum til þess að aðfaraorð fríverslunarsamninga verði ekki bara tóm orð á blaði.

Oft er bent á þegar við ræðum breytingar á stjórnarskrá að í mestu alræðisríkjum sögunnar hafi oft verið mjög fallegar stjórnarskrár, jafnvel þær allra fegurstu. Eini vandinn var að enginn fylgdi þeim. Sama getur orðið með þessa klausu. Við notum fimm línur um mannréttindi til að réttlæta það að gera samninga við hvaða ríki sem er. Síðan eru engin skilgreind viðmið um það hvenær farið er yfir línurnar gagnvart þessum atriðum. Það er ekki einu sinni aflað upplýsinga um það. Við vitum svo sem hvernig mál eru að þróast í ýmsum löndum, en það vantar bara kerfi utan um þetta.

Ég held ég hvetji formann EFTA-nefndarinnar til dáða í þessum efnum vegna þess að eins og hann kom inn á eru aðilarnir við borðið þar með mjög ólíka sýn á samband mannréttinda og viðskipta. Þar held ég að Ísland sé fremst í flokki og eigi að draga vagninn. Til að svo sé þá megum við ekki láta eins og við séum orðin stikkfrí með því að setja nokkur orð inn í fríverslunarsamninga án þess að fylgja þeim eftir.