149. löggjafarþing — 57. fundur,  24. jan. 2019.

fullgilding á uppfærðum fríverslunarsamningi milli EFTA-ríkjanna og Tyrklands.

499. mál
[11:56]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Það er vissulega rétt hjá hæstv. utanríkisráðherra að vöndur okkar er kannski ekkert sérstaklega stór en það getur verið gott að beita honum; moskítóflugur eru ekkert sérstaklega stórar en þær fara í taugarnar á ýmsum. Það er líka oft þannig að við gerum góða hluti vegna þess að það er siðferðislega rétt frekar en endilega að það hafi mikil áhrif.

En það sem mig langar til að velta upp við hæstv. ráðherra er annað. Viðskipti eru alltaf að þróast og eðli viðskipta hefur breyst töluvert mikið á undanförnum áratugum. Hér áður fyrr voru allir fríverslunarsamningar af fyrstu kynslóð, eins og við köllum það í dag, og snerust eingöngu um vöruviðskipti og tollaniðurfellingar. Í þeim þurfti í raun ekkert annað en gagnkvæma tryggingu fyrir því að skip væru ekki send í veg fyrir önnur skip til að hindra að þau kæmust til hafnar eða annað sem kæmi í veg fyrir flæði á vörum. Nú er þetta orðið flóknara með rafrænum viðskiptum og þjónustuviðskiptum sem eiga sér ekki alltaf þannig stoð að beinlínis sé um flutning atóma á milli hafna að ræða. Þá er um að ræða flutning rafeinda milli staða sem skiptir töluverðu máli. Þar spilar ritskoðun ákveðið hlutverk.

Getum við sammælst um að það sé mikilvægt að rafeindir flytjist óhindrað milli staða, þ.e. að engin ritskoðun, hvorki pólitískt né viðskiptaleg, eigi sér stað? Getum við sammmælst um að það skipti jafnmiklu máli fyrir þjónustuviðskipti í dag og það var fyrir vöruviðskipti á sínum tíma að engar flutningshindranir — eða „blockades“, svo að ég sletti ensku, með leyfi forseta — væru í höfnum, fyrirstaða eða aðrar flutningsþvinganir?