149. löggjafarþing — 57. fundur,  24. jan. 2019.

fullgilding á uppfærðum fríverslunarsamningi milli EFTA-ríkjanna og Tyrklands.

499. mál
[12:01]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég heyrði svo sem ekki svar við hinni eiginlegu spurningu um hvort hægt sé að fallast á að upplýsingafrelsi eða flæði upplýsinga skipti jafn miklu máli í nútímanum með þjónustuviðskiptum og rafrænum viðskiptum og að hlutir fái að flæða óhindrað í hefðbundnari viðskiptum. Í öllu falli þakka ég hæstv. ráðherra fyrir gott svar vegna þess að þetta flækist vissulega fyrir fólki. Ég óttast að við gleymum okkur svolítið mikið í þjóðaröryggispælingunum þegar málið snýst jafn mikið um viðskipti og samskipti. Þá er ástæða til að kafa aðeins dýpra ofan í það með það sérstaklega í huga. Ég held að það sé tilefni til þess, ef hæstv. ráðherra er því ekki andsnúinn, að reyna að hefja einhvers konar samvinnu okkar á milli innan EFTA og jafnvel víðar um að reyna að koma þeim skilningi á framfæri að þetta sé grundvallaratriði í viðskiptum okkar í nútímanum.

Það eru auðvitað öll þessi mannréttindamál og það er mikilvægt og gott hvað Ísland hefur staðið sig vel í þeim efnum í gegnum tíðina. En ef við erum ekki skrefi á undan og bregðumst rétt við þegar þessar nýju ógnir verða til, ekki bara á sviði þjóðaröryggis heldur líka á sviði viðskipta, er hætt við því að til verði einhverjar hefðir sem erfitt verður að bakka með. Við missum þá tækifæri úr greipum til að móta þetta eftir því hvernig ætti að gera það, frekar en að fólk lendi einhvern veginn í því að gera þetta fyrir slysni.