149. löggjafarþing — 57. fundur,  24. jan. 2019.

opinber stuðningur við vísindarannsóknir.

411. mál
[12:14]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. menntamálaráðherra fyrir að hafa farið yfir þetta mikilvæga og góða mál og fagna framlagningu þess. Það hefur verið ákall um að bæta um betur í þessum málaflokki. Það hefur verið haft gott samstarf og mikil samvinna við aðila sem að þessu koma og veit ég að hæstv. menntamálaráðherra á góðan og sterkan þátt í því.

Mig langar þó til að tæpa á nokkrum atriðum. Líkt og kom fram í ræðu hæstv. ráðherra er þetta frumvarp í fullkomnu samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar þar sem lögð er áhersla á að fylgja eftir aðgerðum í nýlegri aðgerðaáætlun Vísinda- og tækniráðs. Með framlagningu þess er mætt þörfum vísindasamfélagsins sem er gríðarlega mikilvægt og gott skref. Öflugt vísindasamfélag er styrkur hvers samfélags og ef við ætlum að stíga fram á veginn, efla lífsgæði og þróast áfram í flóknum nútímaheimi er þetta gríðarlega mikilvægt atriði sem við getum byggt á.

Ég ætla að fá að grípa aðeins niður í greinargerðina en þar stendur, með leyfi forseta:

„Með frumvarpinu er verið að hrinda í framkvæmd aðgerð 1.9 í Stefnu og aðgerðaáætlun Vísinda- og tækniráðs 2014–2016 en þar segir: „Lög um samkeppnissjóði Vísinda- og tækniráðs verði endurskoðuð svo að tryggt sé að stjórnir sjóðanna geti markað stefnu hvað varðar sókn í alþjóðlega samkeppnissjóði og á alþjóðlega markaði. Stjórnir sjóðanna hafi heimild til að ráðstafa fé vegna samstarfsverkefna sem hafa verið samþykkt af stjórnum sjóðanna. Einnig sé sjóðunum heimilt að greiða erlendum samstarfsaðilum, eftir því sem við á.““

Hér er enn eitt góða málið þar sem fylgt er eftir fyrirheitum í stjórnarsáttmála. Við erum farin að tikka í mörg box og við höldum áfram.

Tilefnið með þessari lagasetningu er að efla og styrkja stefnumarkandi hlutverk Innviðasjóðs. Eins og fram hefur komið er mjög jákvætt í að styrkja okkur í alþjóðasamstarfi því hér á landi eigum við sterka og öfluga vísindamenn sem stunda rannsóknir. Það er mikilvægt að þeir séu í góðu samstarfi líka út í heimi og að við búum ekki við einhverjar lagasetningar sem eru hamlandi í því. Sú hefur verið raunin. Íslenskir vísindamenn eru svo sannarlega eftirsóttir í alþjóðasamstarfi og málið sem hér er fram komið byggir enn frekar undir þann styrkleika og gefur kost á fleiri tækifærum til samvinnu. Eins og við öll vitum er samvinna góð og samvinna er grunnur að því að við byggjum upp sterkt samfélag.

Það er líka framfaraskref að verið er að setja sérstaka stjórn yfir Innviðasjóð og skerpa þannig á stefnumótandi hlutverki sjóðsins og beina sjónum í meira mæli að rannsóknarinnviðum. Þetta hef ég heimildir fyrir að er mjög sterkur leikur. Þetta er líka til þess fallið að bæta enn frekar stoðkerfi vísinda á Íslandi. Það er gríðarlega mikilvægt skref og ég fagna því. Ég get ekki hætt að ítreka það hversu stolt við getum verið af því hversu gróskumikið íslenskt vísindastarf er. Við eigum að hampa því, við eigum að halda því á lofti og sýna hversu ánægð við erum með það. Það er á flestum sviðum sem svo er. Ég var t.d. á fundi þar sem komu fulltrúar frá Landspítala – háskólasjúkrahúsi og þar eru gerðar gríðarlega margar rannsóknir og mér skilst mér að tvær beiðnir komi á viku, óskir um að fara í vísindarannsóknir. Það er svo miklu meira en ég hafði nokkru sinni gert mér grein fyrir. Ef þetta mál styrkir það og styrkir annað á þessu sviði ber því að fagna.

Íslenskir vísindamenn búa yfir dýrmætri reynslu og þekkingu á svo miklu fleiri sviðum, það er ekki bara á heilbrigðissviðum. Við erum í miklu samstarfi við norrænar þjóðir, í rannsóknarvinnu og ýmsu starfi, t.d. norður á Akureyri hvað það varðar, í Háskólanum á Akureyri, þannig að sviðin eru ólík og við þurfum að taka þátt í þessu starfi. Það eru rannsóknir t.d. á samfélagslegum áhrifum af því hvernig náttúrufarið er að breytast og loftslagsbreytingum og því hvaða áhrif það hefur á okkur að jöklarnir eru að hopa og breytingar að verða á vistkerfi sjávar. Það hefur náttúrlega stórkostleg áhrif á okkur, eylandið í Norðurhöfum. Það er verið að vinna að kortlagningu hafsbotnsins og svo margt fleira sem ég hef ekki þekkingu einu sinni til að nefna hér. Ég geri mér þó grein fyrir mikilvægi þess.

Ég held að við ættum að halda áfram á þessari braut því að nýsköpun og þróun skilar sér í bættu og betra samfélagi. Við erum að leggja grunninn að því að eiga hér sterka einstaklinga í framtíðinni, sterkt samfélag sem býr yfir mikilli þekkingu og hefur kjark til að vera í samstarfi og framþróun í samvinnu við aðrar þjóðir. Við eigum fullt erindi inn á þetta svið. Ég vil bara enn og aftur þakka hæstv. ráðherra fyrir að vera komin með þetta frumvarp og ánægjulegt að sjá hvað ríkisstjórnin tikkar reglulega í öll box um þau fyrirheit sem hún hefur gefið í stjórnarsáttmála.