149. löggjafarþing — 57. fundur,  24. jan. 2019.

opinber stuðningur við vísindarannsóknir.

411. mál
[12:26]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Þetta er ágætismál sem kemur hér fram frá mennta- og menningarmálaráðherra og áherslan er á þá galla sem verið er að laga varðandi samskipti við alþjóðlegar rannsóknir. Það er einmitt mjög mikilvægt að laga það og aðrar tilfærslur sem eru hérna og eiga við um lög um opinber fjármál og svoleiðis — þetta er allt mjög gott.

Það kemur til með að hafa mjög margar jákvæðar afleiðingar, tel ég, en mér finnst óhjákvæmilegt að benda á vissa annmarka innan lands sem við þurfum líka að huga að til hliðsjónar. Þetta frumvarp kemur vonandi til með að gera margt mjög gott. Það er ákveðin lagfæring á samskiptastirðleikum sem geta komið upp við erlenda vísindasjóði o.s.frv.

Ef við förum yfir úthlutun úr Rannsóknasjóði fyrir styrki árið 2019 voru 17% umsókna styrkt. Það segir okkur eitt mjög mikilvægt, að framleiðslugeta íslensks rannsóknasamfélags, ef við getum kallað það svo, er meiri, við getum afkastað miklu meira. Það að nýta ekki þau verðmæti sem felast í þeirri framleiðslugetu kemur tvímælalaust niður á okkur í framtíðinni. Af öndvegisstyrkjum voru t.d. ekki nema 11% umsókna styrktar, af 28 voru ekki nema þrjár styrktar. Af 198 umsóknum um verkefnastyrki var 31 styrkt. Að sjálfsögðu býst ég ekki við að öll verkefnin séu af sama gæðastaðli en þeim er raðað eftir ákveðnum flokkum og þau verkefni sem er raðað efst eru fjármögnuð þar til peningurinn er búinn. Það náði þetta langt, 16% í verkefnastyrki.

Ég myndi vilja sjá betri sundurliðun á þessu, greiningu á því af hvaða verkefnastyrkjum við misstum; af umsóknum sem flokkaðar voru sem gæðaumsóknir, að hagurinn af því að fara út í þær rannsóknir og fá þær afurðir sem af þeim spryttu væri það mikill að augljóst væri að fara ætti í að fjármagna þau verkefni. Það er kannski eitthvað sem við getum unnið með í fyrirspurn hér eða umræðu í kjölfarið.

Til hliðsjónar við þetta frumvarp, sem er með mestu ágætum, finnst mér rétt að benda á stöðuna eins og hún er í dag með úthlutun úr Rannsóknasjóði. Við höfum miklu meira svigrúm og getu til að sinna grunnrannsóknum og ýmsu sem því tengist en við nýtum það ekki. Mér finnst það miður og ég hvet menntamálaráðherra til dáða til þess að leysa þann hluta vandamálsins líka.