149. löggjafarþing — 57. fundur,  24. jan. 2019.

meðferð einkamála og meðferð sakamála.

496. mál
[12:34]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi um breytingu á lögum um meðferð einkamála og lögum um meðferð sakamála, mál sem liggur hér frammi á þskj. 812. Tilgangur frumvarpsins er annars vegar sá að festa í lög ákvæði um réttarstöðu þeirra sem reiða sig á íslenskt táknmál til samskipta við meðferð einkamála fyrir dómi. Hins vegar er með frumvarpinu brugðist við dómi Mannréttindadómstóls Evrópu frá 6. desember 2007 í máli Súsönnu Rósar Westlund gegn Íslandi.

Í frumvarpinu eru nánar tiltekið lagðar til lagabreytingar af þrennum toga. Í fyrsta lagi er með 1. gr. lögð til sú mikilvæga breyting að ríkissjóður greiði þóknun og annan kostnað vegna starfa táknmálstúlks í einkamálum í þeim tilvikum sem skýrslugjafi reiðir sig á íslenskt táknmál til samskipta. Samkvæmt gildandi lögum ber sá sem kallar til slíkan túlk kostnað af því. Í þessu skyni er lagt til að ný málsgrein bætist við 10. gr. laga um meðferð einkamála þar sem sérstaklega verði gert ráð fyrir störfum táknmálstúlka líkt og gert er í dag í lögum um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls. Í því sambandi er bent á að táknmálstúlkar eru ekki nefndir í gildandi réttarfarslöggjöf heldur falla þeir undir kunnáttumenn sem kallaðir eru til í þeim tilvikum þegar skýrslugjafi er ekki fær um að eiga orðaskipti á mæltu máli. Þá falla táknmálstúlkar í dag ekki heldur undir löggilta dómtúlka, en í þann hóp falla einungis þeir sem túlka af íslensku á erlent tungumál eða öfugt og hafa til þess sérstaka löggildingu. Þar sem táknmálstúlkar falla ekki í hóp löggiltra dómtúlka og störf þeirra eru bundin við þá sem hafa táknmál og því annars eðlis en annarra kunnáttumanna er í frumvarpinu lagt til að um störf þeirra og stöðu verði fjallað í sérstakri málsgrein.

Þá er í frumvarpinu lagt til að ríkissjóður greiði jafnframt kostnað vegna starfa kunnáttumanna sem aðstoða þá sem ekki geta fyllilega haft orðaskipti á mæltu máli eða íslensku táknmáli. Er þar höfð hliðsjón af samningi Sameinuðu þjóðanna um fatlað fólk frá 13. desember 2006 sem fullgiltur var af Íslands hálfu á árinu 2016, en samkvæmt 13. gr. samningsins skulu aðildarríki tryggja fötluðu fólki virkan aðgang að réttarkerfinu til jafns við aðra, m.a. með því að laga alla málsmeðferð að þörfum þess.

Í öðru lagi eru með 4. og 5. gr. frumvarpsins lagðar til breytingar á lögum um meðferð sakamála, nánar tiltekið á 12. gr. laganna, sem fjallar um skýrslutöku fyrir dómi og 63. gr., sem fjallar um skýrslutöku hjá lögreglu. Breytingarnar eru í samræmi við þær sem lagðar eru til með 1. gr. frumvarpsins á lögum um meðferð einkamála og er ætlað að tryggja að ákvæði lagabálkanna tveggja um þetta efni séu sambærileg og samhljóða að breyttu breytanda.

Í þriðja lagi eru í 2. og 3. gr. frumvarpsins lagðar til breytingar á 3. mgr. 158. gr. og 3. mgr. 182. gr. laga um meðferð einkamála í tilefni af dómi Mannréttindadómstóls Evrópu frá 6. desember 2007 í máli Súsönnu Rósar Westlund gegn Íslandi, og varðar þetta á engan hátt og er alls óskylt tillögu frumvarpsins um táknmálstúlka.

Í þessu máli komst Mannréttindadómstóllinn að þeirri niðurstöðu að brotið hefði verið gegn rétti kæranda til réttlátrar málsmeðferðar samkvæmt 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu þar sem gildandi 3. mgr. 158. gr. laga um meðferð einkamála girðir í dag alfarið fyrir að áfrýjandi geti flutt mál sitt munnlega fyrir æðra dómstigi í þeim tilvikum þegar stefndi tekur ekki til varna. Þær breytingar sem hér eru lagðar til gera ráð fyrir þeim möguleika að í þeim tilvikum þegar stefndi tekur ekki til varna fyrir Landsrétti eða Hæstarétti verði mál þrátt fyrir það flutt munnlega, en sú ótvíræða meginregla gildi aftur á móti að slíku máli verði að jafnaði lokið án þess.

Virðulegur forseti. Ég hef þá gert grein fyrir efni frumvarpsins og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og 2. umr.