149. löggjafarþing — 57. fundur,  24. jan. 2019.

meðferð einkamála og meðferð sakamála.

496. mál
[12:39]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir að flytja þetta mál sem ég tel að sé mjög mikilvægt og mikilvæg réttarbót.

Hæstv. ráðherra. Þótt það tengist ekki beint efni frumvarpsins langar mig að vekja máls á aðgangi fólks sem talar ekki reiprennandi íslensku með hefðbundnum hætti, ef ég má orða það þannig, að ýmsum stofnunum ríkisins þar sem vélað er um réttindi þeirra eða þar sem fólk þarf að sækja rétt sinn. Það vill þannig til að ég lagði fram fyrirspurnir til ráðuneytanna um t.d. lög og reglur á erlendum tungumálum og síðan var fréttaflutningur fyrir tveimur, þremur dögum, ef ég man rétt, um heimasíðu sýslumanna þar sem vakið var máls á því að e.t.v. mætti gera bragarbót. Ég er að fiska eftir viðhorfum hæstv. ráðherra til þess hvort við þurfum ekki á víðari hátt að tryggja að fólk geti átt samskipti við kerfið, ef við leyfum okkur að kalla það það, þannig að því sé tryggð túlkaþjónusta þar sem það þarf og/eða að þeir sem veita fólki ráðgjöf eða hjálpa því hafi aðgang að efni á tungumálum sem þeir geta miðlað til skjólstæðinga sinna. Þetta tengist því að við erum komin með svo marga borgara sem geta ekki (Forseti hringir.) spjarað sig á íslensku máli.