149. löggjafarþing — 57. fundur,  24. jan. 2019.

meðferð einkamála og meðferð sakamála.

496. mál
[12:44]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir gott svar. Ég skynja hjá henni bæði skilning og vilja til þess að bæta hér úr og fagna því. Ég vil ítreka og láta koma fram að þótt vissulega sé nauðsynlegt að einbeita sér að því að hluta að þýða eða veita gott aðgengi að lögum og reglum um útlendinga þá erum við auðvitað líka með í vaxandi mæli Íslendinga sem hafa ekki fullt vald á íslensku. Þetta snýst því í meira og meira mæli um það að við erum með stærra og stærra hlutfall af borgurum sem eru ekki fyllilega sjálfbjarga, ég tala nú ekki um þegar kemur að flóknari hlutum. Mér finnst að huga þurfi að því. Ég get upplýst það að ég er að velta því fyrir mér og hyggst reyna að móta hugmyndir og leggja fram um einhvers konar stefnu í þeim málum. Ég skynja það svo sem alls staðar sem kom fram í svörum ráðuneytanna við þeim fyrirspurnum sem ég nefndi, að bæði er margt gert þar og yfirleitt stendur vilji til að gera betur, en þetta þarf að hugsa á markvissari og samræmdari hátt af hálfu hins opinbera.