149. löggjafarþing — 57. fundur,  24. jan. 2019.

meðferð einkamála og meðferð sakamála.

496. mál
[12:46]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég teldi vel til fundið hjá hv. þingmanni að velta upp með formlegri hætti einhverjum hugmyndum í því efni hvert skuli stefna. Ég held að allir vilji stefna í sömu átt, að því að hafa meiri upplýsingar frekar en minni á þess vegna sem flestum tungumálum hafi menn tök á því. Það verður þó auðvitað að vera innan ramma einhverrar skynsemi í ljósi fjárheimilda og annað slíkt. Ég vil nefna sérstaklega að þetta er ekki aðeins aukin þjónusta við þann fjölda sem hérna býr, jafnvel íslenska ríkisborgara sem hafa ekki fullt vald á íslenskri tungu, heldur eykur það að bjóða upp á upplýsingar hjá stofnunum á heimasíðu, t.d. upplýsingar um þjónustuna sem veitt er. Það eykur líka skilvirkni kerfisins vegna þess að oftar en ekki kemur upp að starfsmenn í stofnunum sem eiga að þjónusta myndu vilja sjá og hafa betri tæki til að flýta afgreiðslu mála hjá sér. Ég myndi segja að þetta væri mál þar sem allir vinna, ef mætti segja sem svo, þannig að það þarf að gerast.

Maður sér á þróuninni að þetta hefur breyst mjög mikið undanfarin ár. Menn tóku mjög vel við sér, fannst mér, þegar þeir áttuðu sig á því hversu stórt samfélag Pólverja á Íslandi er. Ætli það hafi ekki verið fyrsta erlenda tungumálið sem stofnanir fóru að hugsa um að birta upplýsingar á. Það var nefnilega ekki enskan, sem er svolítið áhugavert. Það var oft frekar pólska en enska sem var í forgrunni í þeim efnum. En manni finnst lágmark að það sé á ensku og jafnvel líka einhverju Norðurlandatungumáli. Í því ljósi vil ég nota tækifærið til að vekja athygli á mikilvægi tungumálanáms á Íslandi.