149. löggjafarþing — 57. fundur,  24. jan. 2019.

Bankasýsla ríkisins.

412. mál
[12:54]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Forseti. Ég hygg að við hv. þingmaður séum ágætlega sammála í þessu og ég er alveg sammála því að auðvitað þarf að gæta að armslengdarsjónarmiðinu. Raunar væri að mínu viti mjög heppilegt almennt varðandi eignarhluti ríkissjóðs í atvinnustarfsemi eða slíku að armslengdarsjónarmið væru fyrir hendi og við værum með eitthvert almennt fyrirkomulag, t.d. varðandi val í stjórnir, bæði að það sé skýr eigandastefna ríkisins í þeim fyrirtækjum sem ríkissjóður á hlut í en það séu líka skýrar reglur um það hvernig valið er í stjórnir, tilnefningarnefndir eða eitthvað þess háttar. Ég hygg að þetta sé allt saman hægt að gera innan vébanda viðkomandi ráðuneyta en þurfi ekki endilega að gera í sjálfstæðum stofnunum. En það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að þetta sjónarmið er mjög mikilvægt og að því sé haldið til haga í þessu samhengi.

Hvað varðar vilja Alþingis þá er það alveg rétt að þessu var hafnað á sínum tíma, en það eru tvennar kosningar síðan og töluverðar breytingar orðið hér í þingsal. Í ljósi þess að þetta viðamikla eignarhald hefur dregist á langinn þá tel ég ekkert óeðlilegt að það sé tekið til endurskoðunar hvort sömu sjónarmið eigi við enn þá og fyrir fjórum árum.