149. löggjafarþing — 57. fundur,  24. jan. 2019.

endurgreiðslur til félagasamtaka til almannaheilla vegna mannvirkjagerðar og annarra framkvæmda.

136. mál
[14:11]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Herra forseti. Það frumvarp sem við ræðum hér, um endurgreiðslu til félagasamtaka til almannaheilla, hygg ég að sé dæmi um frumvarp sem hægt er að vonast til, a.m.k. fyrir fram, að ágæt samstaða náist um í þinginu að afgreiða. Auðvitað á það eftir að fara í gegnum nálarauga efnahags- og viðskiptanefndar og nálaraugu annarra þingmanna hér og kann að taka breytingum. En við sem stöndum að frumvarpinu vonumst til þess að menn horfi til þess hver tilgangurinn er. Ef menn sjá aðra möguleika á að ná sama tilgangi hygg ég að þeir sem að frumvarpinu standa séu meira en reiðubúnir til að skoða þau mál.

Við getum horft til þess árangurs sem við Íslendingar höfum náð á öllum sviðum, það er eiginlega alveg sama hvert við lítum. Við getum horft á árangur í efnahagslegu tilliti. Við höfum náð því að skipa okkur í hóp þeirra þjóða þar sem lífskjör eru best. Við getum horft á íþróttir þar sem við stöndum milljónaþjóðum framar. Við getum horft til lista og menningar. Það þarf ekki að fara mörgum orðum í þessum sal um frammistöðu landsliðs okkar í fótbolta, bæði karla og kvenna, ekki bara fullorðna landsliðsins svokallaða heldur ekki síður unglingalandsliðanna. Við urðum vitni að því fyrir nokkrum dögum hvernig ný kynslóð afreksíþróttamanna er að hasla sér völl á sviði handboltans. Sumir eru ekki komnir með bílpróf, hvað þá meira, og eru komnir í landslið og spila þar jafnfætis bestu íþróttamönnum á sviði handboltans. Þar var frammistaðan langt umfram þær væntingar sem ég hafði, en það vekur manni vonir um að innan skamms verði aftur vor í íslenskum handbolta.

Þannig getum við farið yfir allan völlinn í íþróttum: Í golfi þar sem Ólafía Þórunn Kristinsdóttir hefur sett sitt mark á alþjóðlegar keppnir. Við erum að ná árangri í frjálsum íþróttum, fimleikum o.s.frv. Það er einhvern veginn þannig að þegar maður hittir vini og kunningja frá öðrum löndum eiga menn erfitt með að skilja hvernig í ósköpunum við höfum náð þessum árangri á sviði íþrótta, en ekki síður á sviði lista og menningar. Við virðumst stunda einhvers konar fjöldaframleiðslu á listamönnum, hvort heldur er í bókmenntum, myndlist, kvikmyndum o.s.frv., tónlist ekki síst.

Líkt og framsögumaður vék að áðan er ónefndur hlutur björgunarsveita sem vinna hér ótrúlegt starf. Það stendur hans hjarta nálægt, enda hygg ég að hann hafi lagt mjög þung lóð á þær vogarskálar þegar björgunarsveitirnar sameinuðust undir regnhlíf Landsbjargar. Það er alveg ljóst að það starf sem björgunarsveitirnar vinna á hverju ári án þess að fá fyrir það greitt sérstaklega sparar ríkinu, okkur skattgreiðendum, gríðarlegar fjárhæðir. Þá verður hitt ekki metið til fjár þegar lífi og limum er bjargað.

Að einhverju leyti er þetta frumvarp einhvers konar skilaboð til þessa fólks sem er alltaf reiðubúið að koma og aðstoða okkur hin þegar við lendum í vandræðum. Þetta eru skilaboð til þeirra frá okkur hér í þingsal um að við ætlum að segja: Takk fyrir.

Það skiptir líka máli, þegar kemur að starfi íþróttafélaga, að þetta er ekki bara spurningin um „að framleiða afreksíþróttamenn“, þetta er líka spurningin um það hvers konar uppeldisstarf er unnið, ómetanlegt uppeldisstarf, á vegum íþróttafélaganna og í raun fleiri frjálsra félagasamtaka, að ógleymdum mínum gömlu félögum í skátahreyfingunni.

Ég vil, með leyfi hæstv. forseta, fá að vitna í orð Viðars Halldórssonar, dósents í félagsfræði við Háskóla Íslands. Hann sagði í samtali við mbl.is í maí á síðasta ári, orðrétt:

„Ég held því fram að við séum að upplifa gullöld íslenskra íþrótta. Í íþróttafélögum erum við að ná báðum markmiðum sem snúast um afrek og keppni og einnig uppeldi og félagsfærni. Við erum með mjög sérstakt íþróttastarf að því leyti að við erum ekki að slíta í sundur afreksstarf og uppeldisstarf eins og gert er nánast í öllum löndum í kringum okkur.“

Og Viðar Halldórsson bendir á að munurinn á Íslandi og löndunum í kringum okkur sé sá að erlendis séu atvinnumannafélög sem taka efnilegu krakkana úr hverfafélögunum og setja þau inn í atvinnumannaskipulag sem eigi að leiða til árangurs í framtíðinni. Þetta gerum við ekki hér. Ég hygg að það sama megi segja um íþróttafélögin og björgunarsveitirnar, og ég er í raun sannfærður um að starf þeirra verður aldrei metið til fjár. Það óeigingjarna sjálfboðaliðastarf foreldra og annarra sem koma að íþróttafélögunum verður aldrei metið til fjár. Og aftur er þetta frumvarp eins konar skilaboð frá okkur hér: Takk fyrir, við erum reiðubúin til að styðja við það mikilvæga starf sem þið innið af hendi. Við teljum það mikilvægt og við viljum aðstoða. Við viljum að sameiginlegur sjóður okkar aðstoði ykkur við að byggja upp það starf sem þið innið af hendi.

Herra forseti. Eins og ég sagði í upphafi vonumst við flutningsmenn til þess að frumvarpið fái góðan hljómgrunn. Ég tel mig nokkuð öruggan um að svo sé. Það kemur til efnislegrar meðferðar að lokinni þessari umræðu. Hvort það breytist í meðförum þingsins á eftir að koma í ljós. Það væri auðvitað hægt að fara aðrar leiðir, við erum ekki svo fastheldin á það. En markmiðið er skýrt og það er að styðja við starfsemi félaga sem vinna að almannaheillum, vinna á sviði æskulýðs- og íþróttastarfs og björgunarsveita. Ég vonast til þess að þingmenn sláist í för með okkur flutningsmönnum í þessari ferð sem verður okkur öllum til heilla.