149. löggjafarþing — 57. fundur,  24. jan. 2019.

endurgreiðslur til félagasamtaka til almannaheilla vegna mannvirkjagerðar og annarra framkvæmda.

136. mál
[14:42]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir. Þegar maður stendur að framlagningu frumvarps fara aðilar úti í bæ að benda manni á ýmis atriði sem þurfi að athuga. Eitt af því sem kann að valda erfiðleikum við afgreiðslu þessa máls er að ekki liggur fyrir lögformleg skilgreining á því hvað telst félag til almannaheilla. Það er vandamál sem við þurfum að glíma við. Nú eru til fordæmi, m.a. í tekjuskattslögunum, þar sem ríkisskattstjóri getur skilgreint ákveðin félög sem almannaheillafélög. Það er kannski ekki nægilega skýrt. Við þurfum að huga að þessu og unnið hefur verið að frumvarpi um skilgreiningu og hvaða kröfur félög þurfa að uppfylla til að teljast til félaga til almannaheilla.

Ég velti því fyrir mér hvort hv. þingmaður telji að við meðferð frumvarpsins í efnahags- og viðskiptanefnd og í umræðum hér og síðar eigi þingmenn kannski að skoða það aðeins meira, gera þetta þrengra, miða t.d. bara við íþróttafélög til að byrja með, íþróttafélög og björgunarsveitir, og hafa það algerlega afmarkað, en með því fororði og þeirri stefnu og þeim ásetningi að við viljum síðan víkka þetta út eftir því sem reynsla kemst á ef við upplifum að þetta góða mál nái fram að ganga.