149. löggjafarþing — 57. fundur,  24. jan. 2019.

endurgreiðslur til félagasamtaka til almannaheilla vegna mannvirkjagerðar og annarra framkvæmda.

136. mál
[14:47]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og verð að viðurkenna að ég missti af flutningsræðunni. Þess vegna nota ég tækifærið og spyr hv. þm. Willum Þór Þórsson, einn af flutningsmönnunum, aðeins frekar út í þetta frumvarp.

Mig langar að byrja á að segja að ég er mjög hlynnt því sem ég hef oft kallað þriðja geirann, þ.e. almenn félagasamtök. Ég er mjög hlynnt því að opinberir aðilar vinni náið með slíkum samtökum og ég held að við náum þar oft miklu meiri árangri fyrir minni kostnað. Þess vegna held ég að hugmyndin á bak við þetta frumvarp sé býsna góð. Mig langar þó, vegna þess að við í þessum sal eigum líka að rýna til gagns, að velta upp ákveðnum spurningum.

Hér er talað um að undanþegin gildissviði þessara laga sé mannvirkjagerð eða aðrar framkvæmdir þar sem lögbundin starfsemi hins opinbera mun fara fram. Ég velti því þá fyrir mér: Erum við með einhverju móti að takmarka fjárfestingar í íþróttamannvirkjum sem kynnu líka að vera notuð af grunnskólum? Nú er það oft þannig að grunnskólar semja við íþróttafélög um að nýta aðstöðuna að hluta. Það sama gæti í rauninni líka átt við annars konar tómstundastarfsemi sem gæti flokkast undir að vera lögbundin starfsemi sveitarfélaga út frá æskulýðslögum.

Þá velti ég fyrir mér hvort hvatinn gæti verið neikvæður í þeim skilningi að það sé frekar hvati til að fara stöðugt í að byggja hús. Í svona rekstri finnst mér við oft leggja of mikla áherslu á það og að það vanti fjármuni til að reka starfsemina sjálfa. Ég bið hv. þm. Willum Þór Þórsson að fara aðeins yfir það með mér. Kannski misskil ég málið eitthvað. Þarna kann að vera einhver hvati sem er ekki endilega jákvæður, þ.e. hvað varðar aukið samstarf, sérstaklega sé ég fyrir mér samstarf sveitarfélaga (Forseti hringir.) og ýmissa félagasamtaka sem sinna mjög brýnum og mikilvægum málum á sviði æskulýðsmála.