149. löggjafarþing — 57. fundur,  24. jan. 2019.

endurgreiðslur til félagasamtaka til almannaheilla vegna mannvirkjagerðar og annarra framkvæmda.

136. mál
[14:49]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur fyrir andsvarið og mjög góðar spurningar. Þetta eru allt spurningar sem hafa komið upp í umfjöllun málsins undanfarin ár. Ég reifaði þá sögu í ræðu minni. Þetta með samnýtinguna og sveitarfélögin er flækjustig. Málið hefur batnað í gegnum tíðina eins og vill verða með mál þegar þau eru til umfjöllunar í þingi og nefndum.

Í c-lið 4. gr. frumvarpsins er reynt að nálgast þann þátt sem snýr að sveitarfélögunum en þar segir að það þurfi að liggja fyrir skrifleg staðfesting sveitarfélags um að viðkomandi framkvæmd falli ekki undir lögbundnar skyldur sveitarfélaga. Það er það sem hv. þingmaður kom inn á. Það getur verið neikvætt í þeim tilvikum þar sem um samnýtingu er að ræða og er ekki endilega þörf á því að byggja tvö hús eða tvo velli eða tvær félagsmiðstöðvar. Það er vissulega eitthvað sem þarf að skoða, hvort ekki sé hægt að tryggja í umbúnaðinum þar sem það á við að hvati til samnýtingar falli ekki út, þessi efnahagslegi hvati.

Ég fór jafnframt inn á það áðan í andsvari við hv. þm. Óla Björn Kárason að það segir í stjórnarsáttmála að beita eigi efnahagslegum hvötum til að efla lýðheilsu, forvarnir og almannaheillastarf.