149. löggjafarþing — 57. fundur,  24. jan. 2019.

endurgreiðslur til félagasamtaka til almannaheilla vegna mannvirkjagerðar og annarra framkvæmda.

136. mál
[14:51]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Það er kannski helst þessi þáttur sem ég hef töluverðar áhyggjur af. Ég hef reyndar velt fyrir mér áður hvort við ættum bara að vera jákvæðari gagnvart endurgreiðslu virðisaukaskatts til sveitarfélaga. Er eðlilegt að sveitarfélög reki lögbundna þjónustu og að úr því verði einhver tekjustofn fyrir ríkið á sama tíma og við erum endalaust að ræða um tekjuskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga? Mér finnst alla vega full ástæða til að við veltum því upp í einmitt svona málum hvort endurgreiðsla á virðisaukaskatti vegna framkvæmda og uppbyggingar á samfélagslega mikilvægum byggingum ætti að vera að fullu, hvort sem það væru sveitarfélög eða frjáls félagasamtök og í einhverjum tilfellum kannski samstarfsverkefni þessara aðila. Ég held að við ættum að skoða það.

Ég þekki ágætlega til á sveitarstjórnarstiginu og í mínu sveitarfélagi höfum við margoft rætt um einhvers konar kommúnuhús, þá er ég að taka það úr skandinavískunni, einhvers konar allsherjarfélagsmiðstöð. Reynsla mín er sú að það er til alveg gríðarlega mikið af fasteignum hjá sveitarfélögunum. Það er oft einn af dýrustu rekstrarþáttum sveitarfélaganna að halda utan um þessar eignir, en þær eru notaðar samt á mjög takmörkuðum tíma. Ég er alveg sannfærð um að við gætum nýtt fasteignir hins opinbera mun betur og meira ef það væri meiri samnýting strax í upphafi. Mér finnst það oftar hafa verið verkefni okkar hjá sveitarfélögunum að reyna að tala einstök félagasamtök inn á að vinna saman og samnýta húsnæði eða nýta húsnæði sveitarfélaganna. Með því er ég ekki að segja að það sé ekki mikilvægt, oft þurfa þau að byggja utan um sig og sína starfsemi þannig að ég skil þessa hugsun, eins og ég sagði áðan, og ég tek undir það að við þurfum að styðja mjög við frjáls félagasamtök og það sem þau leggja til almannaheilla og mættum gera það miklu betur. En ég velti aftur fyrir mér samstarfi (Forseti hringir.) við sveitarfélög og hvort það væri hreinlega ástæða til þess að skoða enn auknar endurgreiðslur á virðisaukaskatti til sveitarfélaga þegar um mikilvæg mannvirki til almannaheilla er að ræða.