149. löggjafarþing — 57. fundur,  24. jan. 2019.

endurgreiðslur til félagasamtaka til almannaheilla vegna mannvirkjagerðar og annarra framkvæmda.

136. mál
[15:02]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég ætla líka að taka örstutt til máls. Það er búið að fara ágætlega yfir þetta góða mál og ég byrja á því, eins og fleiri, að lýsa yfir stuðningi við það. Einnig hafa verið viðraðir ákveðnir erfiðleikar sem felast í því að koma málinu í gegn.

Það vakti athygli mína — því að frumvarpið hefur verið lagt fram tvisvar sinnum áður, annars vegar af hálfu atvinnuveganefndar og í seinna skiptið af hálfu þingmanna — að aðeins barst ein umsögn um málið. Hún kom úr minni heimabyggð reyndar þar sem því var fagnað. Ég ætla að vona að þeir sem um ræðir og gætu átt heima hér sem þiggjendur slíkrar endurgreiðslu á virðisauka láti skoðun sína í ljós með því að senda inn umsagnir um málið.

Það vakti líka athygli mína að ríkisskattstjóri ákvað að senda ekki umsögn um málið. Sjálf lagði ég fram mál sem varðaði endurgreiðslu á virðisaukaskatti vegna sérhæfðs íþróttabúnaðar fyrir fatlaða einstaklinga. Þar hafði ríkisskattstjóri sterkar skoðanir. Eins og við þekkjum er það yfirleitt þannig að ríkisskattstjóri vill veita sem fæstar undanþágur á virðisaukaskatti sem er skiljanlegt af því að þær geta flækt kerfið að einhverju leyti. En mér finnst þetta áhugavert af því að væntanlega er um miklu meiri fjármuni að ræða en nokkurn tímann átti við um málið sem ég lagði fram. Kannski ég reyni að leggja það fram aftur. Þetta skiptir þá örfáu einstaklinga sem þar eiga undir miklu máli því að slíkur búnaður er oft dýr.

Vakin hefur verið athygli á c-lið 4. gr., hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir gerði það ágætlega og þau hv. þm. Willum Þór Þórsson fóru yfir að í minni sveitarfélögum getur hugsanlega myndast skynsemishugsun í því að nýta eitthvað saman. Ofan á það að almannaheillafélög eru ekki almennilega skilgreind getur reynst snúið hvernig við náum því fram. Eins og fólk hefur sagt held ég að við styðjum öll tilganginn. Það er vont ef hann nær ekki fram að ganga af því að okkur tekst ekki að skilgreina þá sem við viljum ná til.

Ég tek undir það sem hefur komið fram, til að mynda í umræðunni áðan, um gildi félagasamtaka og hvað við fáum út úr frjálsum félagasamtökum, hvað þau skipta gríðarlegu máli í samfélagi okkar á margan hátt, hvort heldur það eru ólaunaðar björgunarsveitir eða önnur samtök, sem ég veit stundum ekki hvernig við færum að án.

Það er mikilvægt að reyna að komast yfir að skilgreina þetta. Frumvarpið horfir kannski ekki til þess hver ábatinn er, eins og kom fram í andsvörum hjá hv. þingmönnum Willum Þór Þórssyni og Óla Birni Kárasyni, af því að fella niður virðisaukaskattinn, að hann skili sér í ríkissjóð aftur á einhvern annan hátt. Eins og við höfum oft rætt verður ábatinn af félagsstarfi aldrei metinn til fjár. Vissulega má segja að ef byggingar fara af stað sem annars færu ekki af stað skili þær einhverju í ríkissjóð á móti. En þetta hefur ekki verið kostnaðarmetið og mjög erfitt að gera það vegna þess að þörfin kemur ekki beinlínis fram í frumvarpinu, eða umfang þess sem við værum að tala um. Við vitum af einhverju en það er allt frekar óljóst.

Ég styð frumvarpið en við getum ekki gefið okkur að ef við gefum eftir hér skili það sér aftur til ríkisins á einhvern annan hátt. Því hafa fleiri haldið fram í risastórum málum í þessum sal, sagt að þetta sé ekki tekjutap fyrir ríkissjóð vegna þess að það skili sér margfalt inn aftur. Burt séð frá því tel ég að þetta sé eitthvað sem við eigum að fjármagna og finna til þess leiðir svo það liggi fyrir. Það er ágætlega gerð grein fyrir því hverju félagasamtökin þurfa að skila og þetta þarf að gerast áður en þau fara í framkvæmdir o.s.frv., það getur ekki komið eftir á. Ég held að að það sé skynsamlegt. Félagasamtök eru alla jafna fjármögnuð af okkur, fólkinu í landinu. Við njótum afrakstursins, og börnin okkar, eins og hefur verið rakið. Því er ekki óeðlilegt að koma að því á óbeinan hátt.

Ég ætla ekki að hafa orð mín neitt miklu fleiri. Mér finnst málið áhugavert og vona að það finnist lausn á þeim agnúum sem hafa verið nefndir. Ég ítreka að ég vona að við fáum góðar umsagnir um málið. Það skiptir máli ef við eigum að leysa þann skilgreiningarvanda sem mér finnst helst vera uppi. Þá verður líka áhugavert að sjá umsögn ríkisskattstjóra og hvernig hann tekur á málinu.