149. löggjafarþing — 57. fundur,  24. jan. 2019.

endurgreiðslur til félagasamtaka til almannaheilla vegna mannvirkjagerðar og annarra framkvæmda.

136. mál
[15:14]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur fyrir þetta svar. Kannski má segja að við séum að velta upp þeim atriðum sem mikilvægt er að gert verði í umfjöllun hv. efnahags- og viðskiptanefndar. Ég tek heils hugar undir með hv. þingmanni, það er mikilvægt að þeir sem mögulega koma til með að nýta sér þetta taki ekki bara jákvætt undir málið heldur fjalli um það í umsögn sinni hvernig það komi til með að nýtast og hvaða aðrar leiðir eru mögulega færar.

Eins og við þekkjum, og ég kom inn á í ræðu minni, er stutt síðan við samþykktum hér frumvarp til laga um stuðning við bókaútgáfu þar sem fallið var frá áformum um endurgreiðslu á virðisaukaskatti og tekið tillit til sjónarmiða um skilvirkni virðisaukaskattskerfisins og lagt í ákveðna leið með að endurgreiða kostnað sem sérstakri nefnd er falið að fara yfir, taka á móti reikningum og umsóknum þar um.

Mér finnst það vera verkefni hv. efnahags- og viðskiptanefndar að skoða allar færar leiðir út frá þeim umsögnum sem berast, bæði frá þeim sem sjá sér fært að fara í uppbyggingu og viðhald og svo auðvitað frá þeim sem geta bent á leiðir eða gagnrýnt það að við séum með einhverju móti að ganga of nærri virðisaukaskattskerfinu eða flækja það eða gera það ógagnsærra.