149. löggjafarþing — 57. fundur,  24. jan. 2019.

endurgreiðslur til félagasamtaka til almannaheilla vegna mannvirkjagerðar og annarra framkvæmda.

136. mál
[15:16]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Willum Þór Þórssyni fyrir svarið. Ég tek undir að það er kannski mikilvægt, í ljósi þeirra viðbragða sem ríkisskattstjóri hefur komið á framfæri við okkur í nokkrum málum, að horfa á aðrar leiðir. Það er líka mikilvægt að umsagnaraðilar, og þeir sem málið varðar, sýni því þann áhuga að skila inn umsögnum og þá líka með hugmyndum að öðrum leiðum en bara þessari einu, ef við getum búist við því að virðisaukaskattsleiðin verði ekki einföld í framkvæmd eins og komið var inn á varðandi bókaútgáfuna.

Það er eflaust hægt að fara í þetta með einhverjar tilteknar fjárhæðir í ramma fjárlaga þar sem einhver nefnd metur og fer yfir þessi almannaheillafélög og annað, hvernig svo sem skilgreiningin á þeim endar.

Þetta er eitt af þeim málum sem ég held að þingheimur geti sameinast um að afgreiða og skiptir mjög marga máli, snertir á mörgu. Ég hvet nefndarmenn til að fara vel yfir þetta og ýta á eftir því að þeim verði send umsagnarbeiðni sem málið gæti átt við um.