149. löggjafarþing — 57. fundur,  24. jan. 2019.

kosningar til sveitarstjórna.

356. mál
[15:18]
Horfa

Flm. (Andrés Ingi Jónsson) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi um lækkun kosningaaldurs í 16 ár við kosningar til sveitarstjórna. Ég ætla ekki að ganga svo langt að lesa alla greinargerðina sem málinu fylgir. Ég ætla ekki einu sinni að lesa allan listann yfir meðflutningsmenn en verð þó að nefna að við erum 21 þingmaður sem stöndum að málinu, sem er að mér skilst ekki met en það er ansi vel í lagt. Þriðjungur þingheims ber hér fram mál um lækkun kosningaaldurs sem snýst ekki aðeins um að ungmenni fái rödd til að hafa áhrif á samfélagið heldur beina aðkomu að ákvörðunartökunni í sama mæli og við sem eldri erum.

Það fer vel á því að byrja slíkar breytingar á sveitarstjórnarstiginu, enda eru sennilega fáir sem þekkja málefni sveitarfélaga betur en sá aldurshópur sem um ræðir.

Þetta mál er þingheimi ekki með öllu ókunnugt. Við ræddum það á síðasta löggjafarþingi, í tæpar tíu klukkustundir raunar, þannig að þingheimur hefur haft margt um málið að segja. Til upprifjunar má nefna að 1. gr. frumvarpsins, sem kveður á um hina eiginlegu lækkun aldurs, var samþykkt í 2. umr. fyrir rétt tæpu ári með 43 atkvæðum, einu atkvæði gegn og níu hjásetum. Fyrir ári var því mikill stuðningur við málið en ekki náðist að ljúka því vegna þess að of stutt þótti til kosninga á þeim tímapunkti. Tveir mánuðir voru til kosninga þegar við ræddum þetta mál síðast. Nú eru þrjú ár og því er, að mati þess sem hér stendur, ekkert því til fyrirstöðu að ganga frá breytingunum á þessu þingi og fara síðan í framhaldinu í þá vinnu sem þarf til að sómi sé að framkvæmdinni.

Hugmyndir um lækkun kosningaaldurs frá 18 árum niður í 16 eru ekki nýjar af nálinni. Mál þess efnis hafa verið borin fram á Alþingi frá 133. löggjafarþingi — það eru 11 eða 12 ár síðan slíkt mál kom hingað fyrst — og eru hluti af áhyggjum sem fólk í stjórnmálum hefur af lýðræðislegri þátttöku ungmenna og því almennara áhyggjuefni okkar hvernig við tryggjum fjölbreytileika þar sem ákvarðanir eru teknar um samfélagið.

Við höfum kannski meiri reynslu af því að ræða kynjabreiddina í því samhengi en aldur skiptir líka máli. Við höfum ólíka sýn á heiminn eftir því á hvaða æviskeiði við erum. Svo að ég vitni í nýja skýrslu Alþjóðaþingmannasambandsins kemur í ljós þegar skoðuð eru löggjafarþing allra lýðræðisríkja að einungis 2,2% þingmanna eru undir þrítugu. Hér eru það Norðurlöndin sem skera sig nokkuð úr, eins og gjarnan vill verða. Noregur er í efsta sæti með 13,6% þingmanna undir þrítugu og Svíþjóð í öðru sæti með 12,3%. Ísland stendur sig hins vegar engan veginn. Að loknum síðustu kosningum voru þrír þingmenn undir þrítugu en eins og gengur hafa þeir elst þannig að nú er aðeins einn eftir. Ef við reiknum það yfir í prósentur er það 1,6% þingmanna undir þrítugu. Það er undir heimsmeðaltali. Það er ansi hreint lítið, svo að ekki sé fastar að orði kveðið.

Við stöndum ekki jafn illa og þau þjóðþing heimsins sem hafa engan þingmann undir þrítugu, en þau eru eitt af hverjum þremur í heiminum. Við náum því hins vegar ef þetta kjörtímabil rennur sitt skeið á enda, eins og til stendur, og síðasti þingmaðurinn undir þrítugu nær því að verða þrítugur. Þá munum við verma eitt af botnsætunum á listanum.

Hins vegar vill svo vel til að nú erum við með í salnum ungan og sprækan varamann, hv. þm. Bjart Aðalbjörnsson, sem kemur okkur tímabundið yfir heimsmeðaltal, sem sýnir hvað þetta er á vissan hátt viðráðanlegt vandamál.

Lækkun kosningaaldurs er engin töfralausn á því. Þetta er einn af þeim þáttum sem við þurfum að líta til, til að auka áhuga fólks á því að taka þátt í lýðræðisferlinu með okkur sem störfum í því. Hins vegar sýna rannsóknir að ef fyrsta kosningaþátttaka fólks tekst vel og fólki finnst það uppskera eftir væntingum og fær jákvæða upplifun af því að taka þátt eru meiri líkur á því að fólk haldi áfram að vera virkir kjósendur.

Breytingar af þessu tagi geta haft jákvæð áhrif á samsetningu samkundunnar. Við nefnum í greinargerðinni tilraunaverkefni sem fór fram í Noregi einhvern tíma eftir árið 2000 þar sem kosningaaldur var lækkaður í 16 ár í 20 sveitarstjórnum fyrir kosningar. Það varð til þess að þeim sveitarstjórnarfulltrúum snarfjölgaði sem náðu kjöri á aldursbilinu 18–24 ára. Þetta var ekki einungis vegna lækkunarinnar sem slíkrar heldur vegna þess að stjórnmálaöfl bregðast jafnvel ómeðvitað við þeim áheyrendum sem úti eru í samfélaginu.

Það er hægt að nefna nokkur ríki til viðbótar. Austurríki var fyrsta landið til að stíga þetta skref. Það var árið 2007 þegar kosningaaldur var lækkaður niður í 16 ár í öllum kosningum en kjörgengisaldur hélt áfram að vera 18 ár, eins og raunar er lagt til í þessu frumvarpi. Svo var gerð tilraun með lækkun kosningaaldurs við þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði Skotlands árið 2014 sem þótti takast það vel að aldurinn var lækkaður almennt í skoskum kosningum stuttu síðar. Þá má nefna nýjustu þróunina sem færir okkur til Eistlands og Möltu. Maltverjar samþykktu árið 2014 að lækka kosningaaldurinn fyrir sveitarstjórnarkosningar sem fóru fram ári síðar og samþykktu á vordögum 2018, um það leyti sem við fjölluðum um þetta mál síðast, að lækka allan kosningaaldur í 16 ár. Eistneska þingið lækkaði kosningaaldur í sveitarstjórnarkosningum 2015 og það var kosið eftir þeim í fyrsta sinn 2017.

Þessi dæmi sýna að gjarnan er byrjað á sveitarstjórnarstiginu sem, eins og ég nefndi, veitir þá þjónustu sem stendur ungmennum hvað næst. En þar að auki er, alla vega í okkar tilviki, lagatæknilega einfaldara að nálgast það verkefni. Til að lækka kosningaaldur almennt í öllum kosningum þyrfti stjórnarskrárbreytingu sem væri samþykkt á einu þingi. Síðu færu fram kosningar og svo samþykkt aftur á öðru þingi. Hér getum við stigið þetta skref og í framhaldinu séð til hvort við viljum stíga það varðandi forseta og alþingiskosningar.

Þátttaka ungs fólks í kosningum hefur verið til skoðunar um nokkuð langt skeið hér á landi. Íslenska kosningarannsóknin hefur frá árinu 1983 merkt að þátttaka fólks almennt er að minnka og sérstaklega þeirra sem eru í yngstu aldurshópunum. Hins vegar höfðum við engar opinbera mælingar á því fyrr en frá og með kosningunum 2014. Þær hafa leitt í ljós það sem kosningarannsóknin gaf til kynna, að í yngstu aldurshópunum er kjörsókn lægri en í þeim sem eru farnir að nálgast miðjan aldur og upp úr. Samhliða því hefur ýmislegt verið gert til að glæða þátttökuna. Ég nefni sem eitt dæmi átakið #égkýs sem teygir sig inn í alla skóla landsins og hefur sýnt góðan árangur. Reyndin er sú að kjörsókn eftir aldri í slíkum mælingum er að jafnast, skulum við segja. Yngstu hóparnir eru að taka við sér. Þarna hefur náðst að styrkja áhuga fólks á þátttöku.

Í tengslum við #égkýs hefur jafnframt verið kannað meðal framhaldsskólanema hvað það er sem fær fólk til að taka þátt í kosningum, hvað fær ungt fólk til að kjósa. Þar er einkum þrennt sem stendur upp úr. Í fyrsta lagi aukið aðgengi að stjórnmálum og upplýsingum um stjórnmál. Í öðru lagi bætt stjórnmálafræðsla á öllum skólastigum og í þriðja lagi meiri virðing fullorðinna í garð ungmenna. Þetta eru atriði sem komu jafnframt fram hjá ótal umsagnaraðilum sem skiluðu inn erindum til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar á síðasta ári. Þetta eru ábendingar sem við ættum að taka alvarlega, ekki bara varðandi afgreiðslu málsins heldur líka hvert og eitt, hvernig við umgöngumst starfið, hvernig við umgöngumst umbjóðendur okkar úti í samfélaginu.

Eitt af atriðunum er eitthvað sem þyrfti sérstaklega að skoða ef þetta frumvarp yrði að lögum og það er lýðræðisfræðslan. Mikilvægi hennar á öllum skólastigum verður seint vanmetið en það virðist vera nokkur misbrestur á að allir nemendur njóti sömu fræðslu eða jafn góðrar fræðslu þegar kemur að því. Þarna þarf átak, þetta þarf að stórefla, hvort sem er í gegnum formlegt nám eða aukinn stuðning við skuggakosningar og verkefni eins og #égkýs eða stuðning við aðra lýðræðislega starfsemi innan veggja skólanna, eins og t.d. nemendafélög. Lýðræði er ekki eitthvað sem við lærum heldur eitthvað sem við gerum. Þetta er iðnnám, verknám sem við þurfum að hjálpa börnunum okkar að temja sér með því að alast upp t.d. í lýðræðislegum menntastofnunum.

Það fer kannski ágætlega á því að vera að ræða þau mál árið sem barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna nálgast þrítugt. Barnasáttmálinn setur auðvitað þá skyldu á okkur að hlusta á öll börn, en ekki aðeins að hlusta heldur líka að hlýða, að gera það sem þau beina til okkar. Það er eitthvað sem er allur gangur á að gangi vel eða takist vel upp í stjórnmálunum og svo sem ekki bara umkvörtunarefni þeirra sem yngri eru heldur eru margir hópar sem ekki njóta sannmælis innan veggja Alþingis.

Það er spurning hvort breyting af því tagi, þar sem tveir árgangar fólks sem að lögum eru enn börn verða kjósendur, verða virkir þátttakendur í lýðræðisferlinu sem í því tilfelli skilar fólki í sveitarstjórnir, yrði til þess að raungera frekar þá hlustun sem ætti að eiga sér stað á milli stjórnmálamanna og barna.

Þá erum við komin að því sem er helsti ábati þess að fá nýjan og ferskan hóp kjósenda að kjörkössunum, sem er ávinningur fyrir stjórnmálin og fyrir það hvernig við byggjum upp samfélagið. Það hefur nefnilega sýnt sig á síðustu árum að þvert á það sem mýtan segir stundum hefur ungt fólk fullan áhuga á stjórnmálum en fær þeim áhuga útrás með óhefðbundnari hætti en við eigum að venjast. Við getum nefnt allar samfélagsmiðlabyltingarnar sem hafa átt sér stað á síðustu árum og gert drjúgt til að breyta samfélaginu. Þetta er kraftur sem hefðbundnu stjórnmálin þurfa líka ef þau eiga ekki að þorna upp til framtíðar. Þannig að jú, það er örugglega gott og vel fyrir nýja hópa að fá kosningarrétt en það er enn þá betra fyrir lýðræðið sjálft að fá fleiri raddir að borðinu.

Eins og ég nefndi var fyrir ári síðan fjallað um málið og stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd skilaði nefndaráliti til 2. umr. Gerð er grein fyrir þeirri umfjöllun í greinargerð svo að ég ætla ekki að fjölyrða um hana en ein breyting kom frá meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og var samþykkt í þingsal á vordögum 2018. Hún hefur verið tekin upp í frumvarpið og snýr að tengslum kosningarréttar og kjörgengis. Það þótti bjóða upp á of miklar flækjur, vekja upp of margar spurningar, ef einstaklingar sem hvorki eru sjálfráða né fjárráða, eins og 16 og 17 ára fólk er, gætu tekið sæti í sveitarstjórnum. Hér er því lagt upp með að rétturinn til að kjósa færist niður í 16 ár en rétturinn til að verða kosinn haldist 18 ár.

Umræðan í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd var að mér sýnist býsna góð og geta nefndarmenn væntanlega vitnað um hana í síðari ræðum í dag. Þar var lögð nokkur áhersla á þá þætti sem ég hef nefnt, varðandi það t.d. að kosningaþátttaka sé lærð hegðun þannig að við þurfum að byggja betur inn í skólakerfið að taka þátt í lýðræði þar. Og síðan, sem ég held að sé mögulega eitt af grundvallaratriðunum, mikilvægi fræðslu, sem í dag er ekki nógu markviss af hálfu stjórnvalda og þarf að bæta.

Síðast þegar málið var til umræðu var nokkuð rætt að kannski væri hreinlega, betri áferð á því, ef allur aldur, allir þröskuldar sem fólk kemst yfir væru á sama aldursári, hvort ekki væri til að flækja lífið að fólk fengi kosningarrétt 16 ára en væri ekki kjörgengt fyrr en 18 ára. Hægt er að telja upp ýmis önnur tímamót sem hitta á önnur afmæli. Það er hollt að minnast þess að lögræði, það að vera fullorðinn að lögum, og kosningaaldur hafa ekki fylgst að nema síðan árið 1997. Hér á landi hefur þetta lengst af verið aðskilið. Ég velti því stundum fyrir mér hvort það að þetta hafi verið sami aldur þennan tíma sé hluti af ástæðunni fyrir því hvað stjórnmálamönnum gengur illa að tileinka sér þau sjónarmið barnasáttmálans að við eigum að hlusta á börn í störfum okkar, því að sömu mörk eru á milli þess að vera fullorðinn og barn og að vera beinn aðili að kosningu kjörinna fulltrúa. Ég held að hreinlega væri hollt fyrir okkur að rífa þetta í sundur, að grugga þau mörk. Við þurfum að temja okkur nýja starfshætti.

Herra forseti. Ég held ég hafi þau orð ekki mikið fleiri. Ég held að málið skipti miklu. Þetta er lítið grundvallaratriði. Málið undirstrikar að ungt fólk er í framvarðasveit nýrra hugmynda. Þess vegna skiptir svo miklu máli að ungmenni fái það öfluga verkfæri sem kosningarrétturinn er, til þess að hafa áhrif inn í stjórnmálin og með því bæta samfélagið sem þau munu erfa.