149. löggjafarþing — 57. fundur,  24. jan. 2019.

kosningar til sveitarstjórna.

356. mál
[15:43]
Horfa

Flm. (Andrés Ingi Jónsson) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka þingmanninum hlý orð og þakka honum stuðninginn sem hann sýnir málinu með því að vera í meðflutningi á því. Hann nefnir tengsl skattlagningar og réttinda. Þetta er einmitt svo gott dæmi um það hvað við getum nálgast málið frá mörgum ólíkum sjónarmiðum, af því að það er mjög margt sem mælir með breytingum af slíku tagi en það er mjög margt ólíkt eftir því hvernig við erum innréttuð. Mér finnst þetta frekar vera spurningin um sífellt aukna aðkomu ungmenna að stjórnmálum (JÞÓ: Þar er ég sammála líka.) — já, ég ætla ekki að segja að við séum ósammála. En barnasáttmálinn segir að við eigum að taka tillit til skoðana barna í samræmi við þroska þeirra og það þýðir að þetta trappast upp. Á einhverjum tímapunkti er kannski hægt að setja strik, hér er lagt til við 16 ár, þar sem það hvað við hlustum mikið á þau trappast upp í að við veitum þeim formlega aðkomu.

Af því að þingmaðurinn nefndi atkvæðagreiðslur í mars 2018 er rétt að nálega allir þingmenn studdu þetta mál í atkvæðagreiðslu á einn eða annan hátt. Við vorum með atkvæðagreiðslu um breytingargreinina sjálfa sem 43 þingmenn studdu, en svo vorum við með tvær breytingartillögur um frestun gildistöku. Ef við lítum svo á að þeir þingmenn sem studdu breytingartillögurnar hafi stutt megintilgang frumvarpsins þá studdu þetta frumvarp allir þingmenn nema einn. Ég tek því undir með þingmanninum og held að við getum verið nokkuð bjartsýn og brett upp ermarnar inn í vorið.