149. löggjafarþing — 57. fundur,  24. jan. 2019.

kosningar til sveitarstjórna.

356. mál
[15:53]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek bara undir þetta, það skiptir máli. Ég starfaði í sveitarfélagi vestur í Bolungarvík áður en ég kom hingað á þing og iðulega komu krakkar úr skólunum með sínar hugmyndir. Ég man eftir einum sjö ára sem kom með teikningu af vatnsrennibrautargarði sem er orðinn að veruleika í Bolungarvík. Það var fyrir frumkvæði þessa drengs sem nú er kominn á kosningaaldur og getur kosið í alþingiskosningum. Þetta skiptir allt máli og ég held einmitt að þegar ungmennin finna að þau hafi þessi áhrif fari þau að veita samfélaginu meiri athygli, hvað er að gerast í kringum þau, hvort og hvernig þau geta haft áhrif sem skipta máli. Ég tala nú ekki um ef málið snertir þau sjálf, þá koma þau til með að mynda sér skoðun um það fyrr.