149. löggjafarþing — 57. fundur,  24. jan. 2019.

kosningar til sveitarstjórna.

356. mál
[15:55]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Forseti. Ég ætla í sjálfu sér ekki að fara efnislega í þetta mál. Eins og komið hefur fram hjá mörgum hv. þingmönnum sem hafa tekið til máls fór fram gríðarlega mikil og góð umræða um málið á síðasta þingi þannig að við búum nokkuð vel að rökræðum, rökum með og á móti, og getum sótt í þann sjóð. Þá fjallaði hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd mjög vel um málið, fékk til sín fjölda gesta, hlustaði á ólík sjónarmið og tók tillit til ýmissa þeirra. Við stöndum því vel að vígi til að einhenda okkur í málið.

Það sem ég vildi undirstrika í máli mínu, þó að hér hafi aðrir hv. þingmenn komið inn á það, er að með framlagningu málsins núna er búið að mæta einni í það minnsta háværustu röksemdunum gegn samþykkt frumvarpsins í fyrra, nefnilega þeirri að of skammur tími væri til stefnu fyrir sveitarstjórnarkosningarnar. Við ræddum það í þaula og leitt er að sjá að við þessa umræðu eru ekki margir sem tóku þátt í að gagnrýna frumvarpið á þeim tíma, en þess þá heldur að ég ítreki þá afstöðu mína hér í pontu, af því að ég þykist vita að áhugafólk um þetta muni lesa yfir þessar umræður af miklum áhuga, að tíminn var of knappur. Við sem töldum að rétt væri að samþykkja frumvarpið sýndum við því engu að síður ákveðinn skilning að það væri nú kannski helsti gallinn. Svo fór það eins og það fór. Einmitt vegna þeirrar gagnrýni sem kom á þeim tíma tel ég svo mikilvægt að málið hljóti góða afgreiðslu núna og að því verði lokið á þessu þingi.

Þá hafa þeir aðilar sem um véla, koma að næstu sveitarstjórnarkosningum, eins góðan tíma og hægt er að hafa til að undirbúa sig; menntamálaráðuneytið með þeirri fræðslu sem eðlilega hefur verið kallað eftir að það fari í og nauðsynlegt er að hún fari fram, sveitarstjórnir víða um land, dómsmálaráðuneytið kemur að öllum kosningum o.s.frv., að ég tali ekki um þau samtök og aðila sem starfa með ungmennum. Því er rétti tíminn til að samþykkja svona breytingar núna og ég vonast til þess að þeir sem gagnrýndu tímaskortinn í fyrra sjái í það minnsta að hann er ekki bara ekki fyrir hendi núna, heldur sé beinlínis viðsnúningur á því og að þetta sé orðinn mikill kostur núna.

Vissulega eru þingmenn hér sem voru einfaldlega á móti breytingunni. Það er bara heiðarleg afstaða. Ég krefst þess ekki að allt fólk sé samsinna mér í öllum málum. Við tökum þá umræðu væntanlega, bæði innan hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og í þingsal þegar þar að kemur, en við getum í það minnsta sparað okkur stóran hluta hennar hvað varðar tímafaktorinn og að ég tali nú ekki um að við erum búin að ræða þetta dálítið í þaula.

Að mínu viti er málið nánast komið það langt að það megi bara fara að greiða atkvæði um það. Ég játa að ég er kannski örlítið að tala á léttari nótum en ég vonast til að það verði góð og efnisleg afgreiðsla. En á einhverjum tímapunkti þurfum við einfaldlega að greiða atkvæði og að þau falli hér í salnum eftir skoðunum okkar.

Ég hlakka til að taka þátt í vinnu hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar um þessi mál.