149. löggjafarþing — 57. fundur,  24. jan. 2019.

kosningar til sveitarstjórna.

356. mál
[16:03]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég fagna framlagningu þessa frumvarps í dag, þetta er brýnt mál. Ég fagna líka þeirri kærleiksríku umræðu sem á sér stað milli þingmanna á þessu fimmtudagssíðdegi, á annars dökkum degi í sögu þingsins. Það er notaleg stund að vera hérna þar sem fólk sparar ekki hrósið. Ég vil taka undir og hrósa 1. flutningsmanni fyrir að halda málinu lifandi, hrósa þeim sem hafa tekið til máls, hrósa þeim sem eru meðflutningsmenn og þakka góð störf í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd á síðasta þingi þegar málið var tekið til meðferðar. Ég vil líka hrósa þeim gestum sem mættu fyrir nefndina þá og lögðu sitt til málanna, því að allt það starf sem á sér stað í fastanefndum þingsins er ekki síður mikilvægt í störfum þingsins, þ.e. að þeir sem hafa skoðun á málunum, þeir sem vit hafa á, hafa beinna hagsmuna eða óbeinna að gæta, mæti fyrir fastanefndir þingsins og upplýsi okkur þingmenn um hvaðeina.

Það var einmitt það sem gerðist í meðferð málsins á síðasta þingi. Það varð mjög vönduð og góð umræða en ástæðan fyrir því að málið náði ekki fram að ganga var einhvers konar kúltúr á þinginu sem skapaðist þannig að ekki var hægt að bregðast við því með öðru en að láta málið bíða.

Sú umræða sem átti sér stað varð líka til þess að nú kemur frumvarpið með þeirri breytingu sem var ákveðin í nefndinni, þ.e. að til að vera kjörgengur til sveitarstjórna skuli einstaklingur vera lögráða. Umræðan um það var mjög góð vegna þess að talið var óheppilegt að einstaklingur væri kjörinn fulltrúi sem í rauninni hefði hvorki fjárráð né væri lögráða og viðkomandi þyrfti þá að fá lögráðamann sinn til að koma inn og undirrita skjöl þegar svo bæri undir. Það þótti ekki tækt.

Sveitarstjórnarstigið er að mínu mati til fyrirmyndar til að byrja slíka lýðræðisþróun vegna þess að sveitarstjórnarstigið fæst við nærumhverfi einstaklinga. Oft hefur verið talað um að ekki eigi að vera að fást við mál án viðfangsefnis, ekkert um okkur án okkar, hefur verið talað um varðandi marga þjóðfélagshópa. Ég held að það eigi einmitt við um þennan stóra hóp ungmenna sem með lögunum, nái frumvarpið fram að ganga, fær kosningarrétt frá 16 ára aldri.

Ég tek undir það sem kom fram í máli hv. þm. Jóns Steindórs Valdimarssonar rétt áðan, þjóðin er að eldast og þess vegna er gott að við bregðumst við með því að tryggja að ungt fólk hafi nógu sterka rödd. Mér finnast það mjög góð rök. En við megum ekki sofna á verðinum og halda að þetta sé unnið bara með því að frumvarpið sé lagt fram aftur, af því að það voru einstakar raddir í þingsalnum sem töldu að þetta væri hið mesta óráð, að vernda yrði blessuð börnin fyrir hinni óskaplegu pólitísku umræðu sem á sér stað í kringum kosningar. Því er ég alfarið ósammála. Ég tel satt að segja að það væri frábært og þjóðþrifaverk ef við myndum byrja strax í leikskóla að þjálfa börnin okkar, bæði í rökræðum og lýðræði, að við kynntum fyrir börnunum okkar strax á leikskólaaldri hvað það skiptir miklu máli að að geta fært rök fyrir máli sínu, að geta útskýrt hvers vegna maður vill A eða B og jafnvel að hópurinn greiði atkvæði um A eða B o.s.frv. Ég veit að þetta er nú þegar iðkað í einum leikskóla á höfuðborgarsvæðinu. Þar fá börnin á hálfs mánaðar fresti að greiða atkvæði um tvo rétti sem er í boði að hafa í hádegisverð í vikunni. Þarna fá börnin tækifæri frá tveggja ára aldri til að velja á milli þess hvort þau fá spagettí eða kjötbollur. Maður getur alveg ímyndað sér að fyrstu mánuðina og jafnvel árin verði röksemdafærslan fyrir atkvæðagreiðslunni ekki sérstaklega flókin. Það má ætla að hún sé oft „af því bara“ eða „mér finnst þetta gott“. En ef barnið er þjálfað í rökræðum mun það alltaf skila sér í virkari einstaklingum og samfélagslega meðvitaðri einstaklingum.

Ég held að við eigum ekki að óttast að ungmenni landsins bíði skaða af því að verða upplýst um að á Íslandi starfi stjórnmálaflokkar sem hafi það að markmiði að efla hag almennings. Þrátt fyrir allt og þrátt fyrir þá sérstöku stöðu sem við erum í á þingi í dag og höfum verið í held ég að starf stjórnmálaflokka og vilji stjórnmálaflokka sé á einhvern hátt að reyna að koma að gagni fyrir samfélagið, fyrir almenning, þó að áherslur og sjónarhorn fulltrúa og stuðningsmanna ákveðinna stjórnmálaflokka séu mismunandi.

Það er eitt sem mig langar að segja að lokum í örræðu minni og það er að við verðum að muna eftir því í umræðunni að þrýsta á menntamálaráðuneytið og dómsmálaráðuneytið að gyrða sig í brók þegar kemur að fræðslu fyrir nýja kjósendur og þá hvort heldur sem er nýja kjósendur sem vegna aldurs eru að kjósa í fyrsta skipti eða þá sem fá að kjósa vegna ríkisborgararéttar eða flutnings til landsins. Sú fræðsla hefur verið í algjöru skötulíki og okkur ekki til sóma. Ég mun þess vegna samhliða því vinna hatrammlega að því að við eflum hvers konar fræðslu fyrir nýja kjósendur.