149. löggjafarþing — 57. fundur,  24. jan. 2019.

kosningar til sveitarstjórna.

356. mál
[16:12]
Horfa

Flm. (Andrés Ingi Jónsson) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður hóf ræðu sína á hróshring miklum. Ég vil hrósa henni fyrir það og þakka henni fyrir þá vinnu sem var unnin í málinu fyrir ári í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.

Það er alveg rétt sem þingmaðurinn segir, að á dökkum degi eins og þessum, þegar við vitum ekki alveg hvernig okkur á að líða í vinnunni, er dálítið gott að eiga eitt svona mál sem við stöndum að, 21 þingmaður, þvert á flokka, sem snýst um grundvallarbreytingu samfélaginu til bóta og sem við vitum að naut fyrir ári stuðnings 43 þingmanna í þingsal, mál sem var unnið í mikilli sátt í nefnd, sem tók breytingum þar sem hlustað var á ólík sjónarmið. Þetta mál nær að kristalla hvað þetta getur verið almennilegur vinnustaður þó að stundum séu dagarnir dökkir.

Þær breytingar sem stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd gerði voru til bóta. Þetta er nokkuð sem við ræddum í 1. umr. fyrir ári, sem kom síðan í ljós við umfjöllun nefndarinnar að þyrfti að breyta, aðskilja kjörgengi og kosningaaldur, sem ég sé í nýrri skýrslu Alþjóðaþingmannasambandsins sem ég nefndi í framsöguræðu minni að er í rauninni almenna reglan í heiminum. Þar stendur að kjörgengi sé í 65% tilvika hærri aldur en kosningarréttur á þjóðþingum. (Forseti hringir.) Aðskilnaðurinn á milli þeirra tímamóta sem yrði með frumvarpinu er fullkomlega eðlilegur í hinu stóra samhengi.