149. löggjafarþing — 57. fundur,  24. jan. 2019.

kosningar til sveitarstjórna.

356. mál
[16:14]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er ekki rétt að ég ætli að svara andsvari af því að spurningin var í rauninni engin en ég kem upp til að bregðast við þeim orðum að ekki þurfi að fara saman kosningarréttur og kjörgengi. Við erum nú þegar með mjög skýrt dæmi um slíkt í íslenskum lögum og það varðar þegar við kjósum okkur forseta, af því að þar hafa ekki allir sem hafa kosningarrétt heimild til að bjóða sig fram. Við erum því klárlega með slíkt fordæmi. Við erum auðvitað líka með slíkt fordæmi þegar kemur að kosningum til Alþingis. Það þarf að hafa óflekkað mannorð til að mega bjóða sig fram til Alþingis en fólk missir ekki kosningarréttinn sinn. Það er því ekkert sem segir að þetta verði að fara saman. Svo vorum við í fyrri tíð með þetta alls konar, þegar kosningarrétturinn fylgdi eignastöðu og konur höfðu ekki kosningarrétt o.s.frv. En ég fagna málinu og hlakka til að vinna það.