149. löggjafarþing — 57. fundur,  24. jan. 2019.

kosningar til sveitarstjórna.

356. mál
[16:21]
Horfa

Flm. (Andrés Ingi Jónsson) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég kveð mér hljóðs vegna þess að þingmaðurinn nefndi loftslagsmál og það hvernig ungt fólk hefur undanfarið stigið fram og verið einhverjir öflugustu málsvarar alvöruaðgerða í loftslagsmálum. Þetta er svo kristaltært og gott dæmi um það hvernig langtímahugsunin, sem ætti auðvitað að vera í stjórnmálum, er miklu tamari því fólki sem mun upplifa þá framtíð sem langtímahugsunin þarf að taka tillit til.

Ég hef tekið þátt í fleiri kosningabaráttum en ég hefði viljað á síðustu árum en þetta hefur mér einmitt þótt einkenna þær heimsóknir sem ég hef átt í framhaldsskólum. Þar koma spurningarnar um loftslagsmál. Þar koma spurningarnar um dýravelferð og breyttar neysluvenjur og öll þau mál sem snerta langa framtíð, miklu frekar en hjá eldri hópum.

Það að stjórnmálin þurfi að takast meira á við slíkar spurningar gagnvart fólki með kosningarrétt held ég að muni þjálfa okkur betur í því að taka þau mál inn í stefnumörkun okkar.

Svo var nefnd fyrr í umræðunni Brexit-atkvæðagreiðslan. Þar var einmitt barátta um að lækka kosningaaldur. Eftir að Skotar höfðu reynt það í þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði var ákveðinn meðbyr með þeim breytingum hjá Bretum en hjá nógu litlum hópi til að það færi ekki í gegn. Það hefði þýtt allt aðra niðurstöðu í Brexit vegna þess að kynslóðin sem er að fara að hverfa af sviðinu (Forseti hringir.) tryggði það að Brexit varð ofan á en kynslóðin sem mun þurfa að lifa þann veruleika hefði ekki viljað það.