149. löggjafarþing — 57. fundur,  24. jan. 2019.

búvörulög.

295. mál
[16:29]
Horfa

Flm. (Halla Signý Kristjánsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég flyt hér frumvarp til laga sem snýr að breytingu á búvörulögum, nr. 99/1993, með síðari breytingum (afurðastöðvar í kjötiðnaði). Flutningsmaður með mér er hv. þm. Líneik Anna Sævarsdóttir.

Frumvarpið felur í sér breytingu á 1. gr. laganna eins og hér segir:

„Á eftir 71. gr. laganna kemur ný grein, 71. gr. A, svohljóðandi:

Þrátt fyrir ákvæði samkeppnislaga er afurðastöðvum í kjötiðnaði heimilt að sameinast og gera með sér samkomulag um verkaskiptingu og hafa með sér annars konar samstarf til þess að halda niðri kostnaði við framleiðslu, geymslu og dreifingu kjötvara. Leggja skal upplýsingar um slíka samninga og samstarf fyrir ráðherra til upplýsingar.“

Frumvarpið felur í sér breytingar á þann hátt að þrátt fyrir ákvæði samkeppnislaga er afurðastöðvum í kjötiðnaði heimilt að sameinast og gera með sér samkomulag um verkaskiptingu og hafa með sér annars konar samstarf til að halda niðri kostnaði við geymslu og dreifingu og annað slíkt, eins og áður segir. Það gæti m.a. falist í að samræma flutning sláturgripa og einnig dreifingu afurða og markaðsstarf.

Eins og segir í greinargerð með frumvarpinu er þetta gert í því skyni að undanþiggja afurðastöðvar í kjötiðnaði ákvæðum samkeppnislaga. Þá er allt kjöt undir.

Með frumvarpinu er tilgangurinn að veita innlendum kjötiðnaði tækifæri til að hagræða og til að bregðast við ört vaxandi samkeppni við afurðir frá erlendum mörkuðum. Afurðastöðvar í kjötiðnaði geta mjög takmarkað sameinast þar sem það er í andstöðu við ákvæði samkeppnislaga. Það skilar sér í of háum rekstrarkostnaði, háu verði til neytenda og lágu afurðaverði til bænda.

Frumvarpinu er líka ætlað að bregðast við auknum innflutningi á landbúnaðarafurðum. Nú eru um 20% af heildarneyslu kjöts innflutt. Litlar afurðastöðvar um landið hafa ekki einar og sér burði til að keppa á þessum markaði. Samkeppnin, sem innlend framleiðsla stendur frammi fyrir, er risastór og það er engan veginn í valdi greinarinnar að keppa í verði eða magni. Íslenskur landbúnaður á nú þegar í alþjóðlegri samkeppni á innanlandsmarkaði, sá veruleiki er til staðar.

Vandi sauðfjárbænda hefur mikið verið í umræðunni og var sett af stað nefnd á síðasta ári til að skoða hvaða úrræði væru í sjónmáli til að laga stöðuna. Fyrr í mánuðinum undirrituðu fulltrúar Bændasamtaka Íslands og stjórnvalda samkomulag um endurskoðun á samningi um starfsskilyrði sauðfjárbænda. Í viðræðum sem fóru fram í haust milli aðila var það uppi að fara þyrfti ofan í rekstrarumhverfi afurðastöðva. Í landinu eru níu afurðastöðvar sem hafa leyfi til að sinna sauðfjárslátrun. Þær afurðastöðvar eru í eigu bænda að mestu leyti og því má segja að það sé alltaf hagur bænda að grundvöllur sé til að hagræða í rekstri.

Afurðastöðvum er með þessu gert kleift að vinna saman eða sameinast og vinna að markaðsstarfi eins og áður var sagt. Það ætti að skila sér í lægra verði til neytenda og hærra verði til bænda.

Íslenskar afurðastöðvar og bændur verða að vera undir það búnir að mæta aukinni samkeppni sem innflutningur á kjöti er — sem er staðreynd. Nú er staðan sú að innflutt nautakjöt er orðið rúmlega 20% af nautakjötssölu hér. Svipaða sögu er að segja um innflutning á kjúklingi og svínakjöti. Það þarf því ekkert að taka fram að íslenskt kindakjöt er hluti af þessum kjötmarkaði og þarf að efla varnirnar.

Í skýrslu KPMG, sem er úttekt á afurðastöðvum, er niðurstaðan sú að margt bendi til þess að sláturhús séu of mörg og þeim þurfi að fækka til að auka hagræði í greininni. Þar segir líka að fækkun afurðastöðva geti aukið arðsemi sláturhúsanna sem eftir verða og að þau hefðu svigrúm til sjálfvirknivæðingar. Það gæti verið svar við þeim erfiðleikum sem m.a. hafa verið við að manna sláturhúsinu yfir háannatímann.

Virðulegi forseti. Það er ljóst að styrking afurðastöðva skiptir sauðfjárræktina sérstaklega miklu máli því að þar hefur orðið markaðsbrestur. Undanfarin þrjú ár hefur afkoman í greininni verið á niðurleið og hefur eiginlega náð botni sínum. Það þarf átak til að geta spyrnt sér upp frá honum. Afurðaverð hefur verið í sögulegu lágmarki. Meðalverð til bænda var nú í haust um 387 kr. á kíló en þyrfti líklega að vera um 650–700 kr. til að ná viðunandi rekstrargrundvelli á meðalsauðfjárbúi.

Það er ljóst að staða afurðastöðva hefur verið með þeim hætti að ekki hefur verið hægt að greiða hærra verð til bænda. Það kemur engum til góða, hvorki bændum né neytendum. Útgangspunkturinn er að hagsmunir bænda og neytenda fara saman. Því er það sameiginlegt baráttumál að standa vörð um íslenska matvælaframleiðslu.

Ég hef svo sem ekki fleiri orð um þetta frumvarp. Ég vona að vel verði tekið í það og það fái góða umfjöllun í atvinnuveganefnd þar sem það á heima.