149. löggjafarþing — 57. fundur,  24. jan. 2019.

búvörulög.

295. mál
[16:36]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Það kemur kannski ekki á óvart að ég hafi töluverðar efasemdir um það mál sem hér er flutt. Þegar verðþróun á vöruflokkum hér í landi er skoðuð eftir því hvort samkeppni ríkir eða ekki sjáum við að verulegur munur er á því, horft 20 ár aftur í tímann, hversu mikið verðlag hefur hækkað; langmest í þeim vöruflokkum þar sem lítil eða engin samkeppni ríkir og langminnst í þeim vöruflokkum þar sem samkeppni er hvað mest.

Þess vegna kemur dálítið á óvart að í greinargerð með þessu máli sé vísað til þess að það sé í þágu neytenda að sameina frekar afurðastöðvar í kjötvinnslu. Það er athyglisvert að frá því að stuðningi við grænmetisrækt var breytt í beingreiðslur í stað tollverndar, og greinin hefur starfað undir óheftri samkeppni erlendis frá að öðru leyti, hefur verð á þeim afurðum hækkað mun minna en verðlag almennt í landinu frá 2004 að telja. Á sama tíma höfum við veitt mjólkuriðnaðinum undanþágur frá reglum samkeppnisréttarins en þar hefur verðlag hækkað talsvert umfram hækkanir á vísitölu neysluverðs.

Þess vegna velti ég fyrir mér í fyrra andsvari mínu: Hvernig fá flutningsmenn þessa máls séð að það sé í þágu neytenda að hér yrði leyfð frekari fákeppni en þegar er raunin í rekstri afurðastöðva? Þá má hafa í huga umkvartanir bænda sjálfra yfir því hversu fáa valkosti þeir hafi varðandi slátrun og hvernig þeir geti unnið úr afurðum sínum og einnig má hafa í huga að samþjöppun í þessari atvinnugrein er þegar mjög mikil. Mér telst t.d. til að það séu einar fimm afurðastöðvar í slátrun á sauðfé. Tvær þeirra eru alla vega í mjög tengdu eignarhaldi þannig að í virkri samkeppni eru þær sennilega ekki nema þrjár til fjórar.