149. löggjafarþing — 57. fundur,  24. jan. 2019.

búvörulög.

295. mál
[16:38]
Horfa

Flm. (Halla Signý Kristjánsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Víglundssyni fyrir andsvarið sem var ekki óvænt. En ég fullyrði að hagur bænda og neytenda fari saman hvað varðar samkeppni. Það er vegna þess að verð er ekki eina hagsmunamál neytenda heldur líka gæði. Það skiptir gríðarlega miklu máli fyrir íslenska neytendur að hafa þetta val. Við erum að tala um samkeppni frá erlendu kjöti, af erlendum mörkuðum, sem bæði eykur kolefnisspor og er ekki af þeim gæðum sem íslenska lambakjötið er, sem er bæði vistvænt og hreint. Þar liggja hagsmunir neytenda. Það skiptir gríðarlega miklu máli að neytendum sé boðið upp á íslenskan kjötmarkað.

Það sama er uppi í mjólkuriðnaðinum en samkeppnisákvæði var tekið þar út. Það hefur aukið nýsköpun í mjólkuriðnaði. Við sjáum að íslenskur mjólkurmarkaður hefur eflst, hefur komið meira til móts við neytendur í nýsköpun og fjölda vara og öðru. Við erum að keppa á örmarkaði hér á landi og við erum mjög lítil í því samhengi.