149. löggjafarþing — 57. fundur,  24. jan. 2019.

búvörulög.

295. mál
[16:40]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð að viðurkenna að þegar tal í tengslum við íslenskan landbúnað berst að því að undanþiggja atvinnugreinina samkeppnislögum sækir að mér verulegur efi. Samkeppnislögin eru nefnilega fyrst og fremst sett til verndar neytendum, til þess að tryggja að við njótum valfrelsis og samkeppni á sem flestum mörkuðum. Þess vegna hljóta að þurfa að liggja að baki mjög ríkar ástæður til að undanþiggja heilu atvinnugreinarnar reglum samkeppnislaga. Á endanum eru samkeppnislögin ekkert svo hamlandi fyrir atvinnulífið almennt.

Heimildir til samstarfs eða frekari samruna umfram reglur samkeppnisréttarins? Ég spyr þá: Mætti ekki allt eins með sömu rökum segja að hér væri langbest að hafa eitt olíufélag eða að þau mættu hafa með sér fullt samstarf? Ég held að flestum þætti það óráð. Eða að við værum hér með eina matvörukeðju eða að núverandi keðjur mættu hafa með sér fullt samráð og samstarf um rekstur fasteigna, innkaup o.s.frv. Það held ég að okkur þætti líka hið mesta óráð.

Hvað með einn banka? Eitt tryggingafélag? Eitt símfyrirtæki? Hvað er það sem gerir landbúnaðinn sérstakan í þessu samhengi? Öll fyrirtæki hér á landi standa í einhvers konar samkeppni við innflutning eða staðkvæmdarvörur af einhverju tagi sem fluttar eru inn, eða þjónustu. Þrátt fyrir það dettur okkur ekki í hug að fara inn í samkeppnisgreinar eins og síma, matvöruverslun, banka, vátryggingastarfsemi og svo mætti áfram telja — hvað þá olíudreifingu og verslun — og undanþiggja þessar greinar samkeppnislögum.