149. löggjafarþing — 57. fundur,  24. jan. 2019.

búvörulög.

295. mál
[16:42]
Horfa

Flm. (Halla Signý Kristjánsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, takk aftur, hv. þm. Þorsteinn Víglundsson. Við erum kannski að tala um ólíka hluti þegar við tölum um fjarskiptaþjónustu eða matvælaöryggi. Ef við opnum alveg fyrir innflutning á mjólkurvörum — mig minnir að það hafi komið fram í haust, ég las það í Bændablaðinu, að tíunda stærsta fyrirtækið á samkeppnismarkaði í mjólk veltir nokkrum sinnum því sem íslenska ríkið veltir, við erum að keppa á örmarkaði. Þó að hagrætt sé fyrir okkur sem erum að framleiða íslenska vöru, sem við viljum öll halda í, erum við komin að sársaukamörkum í sauðfjárræktinni. Ég held að við séum ekki að tapa neinu, íslenskir neytendur, vegna þess að við fáum vöru sem er fyllilega samkeppnishæf við erlenda vöru. Það er þar sem við þurfum að fóta okkur.

Þó að við liðkum aðeins fyrir þeirri samkeppni held ég að ekki sé á neinn hallað, alls ekki á neytendur. Ég held að það sé aldrei of oft tekið fram að hagur neytenda og bænda fer alltaf saman, það er mjög mikilvægt að draga það fram. Ég er ekki að tala fyrir því að skorið sé á samkeppni í öðrum vörum, t.d. í olíu sem er öll innflutt. Þar eru fyrirtæki á erlendum markaði að keppa sín á milli og líka í fjarskiptamálum og öðrum greinum.