149. löggjafarþing — 57. fundur,  24. jan. 2019.

búvörulög.

295. mál
[16:44]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Frú forseti. Við skulum ekkert velkjast í vafa um að þeir sem greiða fyrir undanþágur frá samkeppnislögum á endanum eru neytendur og í þessu tilviki án efa bændur líka. Bændur í samhengi þeirrar sterku stöðu sem afurðastöðvarnar hafa nú þegar á kjötmarkaði hér á landi kvarta mjög hátt undan því að tækifæri þeirra til sölu og markaðssetningar á eigin afurðum séu ákaflega takmörkuð, bændur eigi í raun og veru ekkert val við hverja þeir skipti. Nýverið t.d. þegar afurðastöðvar boðuðu verulega lækkun á verði til bænda og bændur lýstu því yfir að þeir kysu jafnvel að leita tækifæra í eigin vinnslu og markaðssetningu á afurðum hækkaði skyndilega mjög verð til þeirra til að geta tekið skrokkana heim aftur til frekari vinnslu. Það lýsir þeirri fákeppni eða í raun og veru einokunarstöðu sem þegar er til staðar á markaðnum. Hvað varðar að fara í frekari samruna skulum við horfa aðeins á þau fyrirtæki sem eru allsráðandi.

Við erum með Sláturfélag Suðurlands sem veltir liðlega 10 milljörðum á ári, er með eigið fé upp á rúma 5 milljarða og eiginfjárhlutfall upp á 60%. Mér sýnist það endurspegla ágætlega traustan og heilbrigðan rekstur og að ekki þurfi til inngrip eða undanþágur frá samkeppnislögum til að styðja frekar við þann rekstur. Þar hefur líka verið mjög mikil samþjöppun þannig að Sláturfélagið hefur verið að útvíkka starfsemi sína í gegnum árin til fleiri afurðaflokka og er mjög ráðandi t.d. þegar kemur að kjúklingaslátrun og -vinnslu og lambi og öðrum kjötafurðum. Við erum með Kaupfélag Skagfirðinga fyrir norðan sem á jafnframt eignarhlut í tveimur sláturhúsum til viðbótar í Vestur-Húnavatnssýslu og á Suðurlandi þannig að þar sjáum við að þegar er orðin mikil samþjöppun. Við erum með Norðlenska á Eyjafjarðarsvæðinu sem á í samrunaviðræðum við aðra afurðastöð eftir því sem ég best veit. Markaðurinn er þegar orðinn mjög þröngur á því sviði. Við erum með, myndi ég segja, þrjár til fimm ráðandi afurðastöðvar eftir því hvort við teljum tengda aðila saman eða ekki.

Það væru klárlega ekki hagsmunir bænda sem hér væru hafðir í huga því að það væri enn frekar þrengt að möguleikum þeirra til markaðssetningar, hvað þá eigin vinnslu á afurðum, með slíkri lagabreytingu. Við sjáum skýrt í öllum þeim undanþágum sem við höfum veitt frá samkeppnislögum í gegnum tíðina að þær eru alltaf á kostnað neytenda.

Á undanförnum 20 árum hefur fátt ef nokkuð hækkað meira en póstþjónusta og akstur leigubifreiða, svo að dæmi sé tekið. Það eru tveir markaðir þar sem lítil sem engin samkeppni er til staðar. Mjólkurafurðir hafa sömuleiðis hækkað talsvert umfram verðlag þrátt fyrir umræðu um alla þá hagræðingu sem undanþágan á sínum tíma átti að skila til neytenda. Sú hagræðing hefur á engan hátt skilað sér til neytenda. Ég held að við eigum að taka af allan vafa um það. Meira að segja í umhverfi sem á að hluta til við um mjólkuriðnaðinn, en á líka við t.d. um raforkuflutning og dreifingu þar sem við höfum leyft ýmist algjöra einokun eða verulega fákeppni undir svokölluðu regluðu umhverfi, sjáum við að verðhækkanir á þjónustu af þeim flutningi eru talsvert umfram verðlagshækkanir, enda afkoma þar yfirleitt nokkuð góð. Það hefur sýnt sig að ekkert veitir stífara aðhald en frjáls samkeppni, það er enginn harðari húsbóndi í þeim efnum.

Hvaða vörur eru það sem hafa hækkað minnst á þeim 20 árum ef við horfum til samanburðar? Þetta er sundurliðun á vísitölu neysluverðs eins og Hagstofan birtir hana. Það er t.d. fatnaður og skór. Það er símaþjónustuna, innfluttar bifreiðar og varahlutir til bifreiða og svo mætti áfram telja. Þetta eru allt saman vöruflokkar sem lúta engri sérstakri vernd af okkar hálfu þar sem samkeppni er óheft, hvort sem er meðal innflutningsvara eða innflutningsvara við innlenda framleiðslu eða innlenda þjónustu.

Þess vegna er mjög varhugavert að ætla að feta frekar í þá átt. Ég held að það sé hvorki í þágu bænda né neytenda að stíga slík skref. Ég held að við ættum frekar að sameinast í þessum sal um að losa bændur sjálfa undan því oki sem afurðastöðvakerfið er þeim og þann fjötur sem það setur bændum m.a. til eigin vinnslu og markaðssetningar á vörum sínum og við sjáum mýmörg dæmi um. Við sjáum líka óttann sem virðist vera við það, samanber þá tilraun Matís í haust til að móta reglur um vinnslu úr svokölluðum örsláturhúsum sem ekki hefur hlotið mikinn hljómgrunn hjá núverandi stjórnvöldum.

Það er svo að þeir flokkar sem eru við völd hafa aldrei haft neina sérstaka ást á frjálsri samkeppni. Þær samkeppnisreglur sem við þó höfum fengið, þær reglur og lagasetningar sem við þó höfum fengið til varnar okkur neytendum, eru meira og minna allar innfluttar í gegnum Evrópska efnahagssvæðið. Það er umhugsunarefni. Fyrir gildistöku samningsins um Evrópska efnahagssvæðið var varla rætt um samkeppnislög, samkeppnisreglur eða mikilvægi frjálsra samninga.

Ég þekki alveg sögur gamalla atvinnurekenda af því hversu þægilegt var að vinna undir til að mynda opinberu verðlagseftirliti þar sem þurfti heimildir til verðhækkana. Það er svo auðvelt að rökstyðja verðhækkanir þegar einungis þarf að sækja heimildina en ekki lúta aga samkeppninnar. Samkeppnin spyr okkur ekki hversu mikið við þurfum að hækka. Samkeppnin skammtar okkur hversu mikið við getum hækkað. Það er ekki vandamál að rökstyðja fyrir opinberri nefnd hækkunarþörfina út frá launahækkunum eða þróun á vísitölu neysluverðs eða einhverjum öðrum þeim þáttum sem hægt er að grípa til hverja stundina og yfirleitt eru slíkar hækkunarbeiðnir samþykktar umhugsunarlítið. Frjáls samkeppni samþykkir slíkan rökstuðning aldrei heldur spyr einfaldlega hver bjóði best. Við það verða allir aðilar að keppa.

Það er miður að við höfum ekki meiri trú á samkeppninni en þetta. Ég vona svo sannarlega að málið nái ekki fram að ganga.