149. löggjafarþing — 57. fundur,  24. jan. 2019.

búvörulög.

295. mál
[17:00]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Það er alltaf frískandi að hlusta á hv. þm. Þorstein Víglundsson tala um landbúnaðarmál og verðsamkeppni. Það er hins vegar verulega fyndið að nefna bensínsölu á Íslandi sem dæmi um samkeppni; þar eru fimm olíufélög og það er líklega einn blettur á Íslandi, svona 5 km blettur, þar sem raunveruleg samkeppni er í verði á bensíni og olíu. Annars gætum við nafnarnir fengið okkur bíltúr vítt og breitt um landið og komist að því að verðmismunurinn á milli þessara fyrirtækja er 10 aurar á lítrann nema það sé heimsmeistarakeppni í handbolta eða Eurovision eða eitthvað slíkt þannig að virk samkeppni á þeim markaði er ekki til.

Það má líka nefna að á Íslandi erum við með verslunarfyrirtæki sem er með 60% markaðshlutdeild en slík markaðshlutdeild þekkist hvergi. Mig minnir að í Bretlandi séu þrjár stærstu matvörukeðjurnar með 60% til samans og Bretar svitna yfir því. Þeim finnst það alveg rosalegt. Þetta eitt út af fyrir sig, þ.e. „virk samkeppni“, sem er bara ekkert rosalega víða, skapar ekki grundvöll til lægra vöruverðs, síður en svo. Hv. þingmaður sagði: Það sem hefur hækkað minnst undanfarið eru skór og fatnaður. Það er reyndar með hjálp ríkisins sem hefur aflétt bæði sköttum og vörugjöldum þar af. Ekki er hægt að klappa kaupmanninum á bakið fyrir það.

Fyrrverandi hv. þm. Ögmundur Jónasson sagði gjarnan um skýrslu sem Hagfræðistofnun Háskólans gaf út fyrir nokkrum árum að ábatinn af því að Mjólkursamsalan var á sínum tíma undanþegin samkeppnislögum væri 3 milljarðar á ári, þar af færu 2 til neytenda og 1 til bænda.

Mig langar til að heyra álit hv. þingmanns á þessu og hvernig hann (Forseti hringir.) rökstyður það að það sé versluninni í landinu að þakka að vara sem nýbúið er að lækka vörugjöld og tolla af hækki minna en eitthvað annað.