149. löggjafarþing — 57. fundur,  24. jan. 2019.

búvörulög.

295. mál
[17:02]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni andsvarið og viðurkenni að mér þykir fátt skemmtilegra en að kýta við hv. þingmann um landbúnaðarmál.

Spurt er: Er þetta ekki allt afnámi tolla og vörugjalda að þakka? Vafalítið hefur það haft sín áhrif. Ég nefndi reyndar talsvert fleiri vöruflokka en þessa. Það má líka nefna í því samhengi að á því tímabili sem ég var að tala um, á undanförnum 20 árum, man ég ekki betur en að matarskatturinn svokallaði hafi verið tekinn upp, þ.e. virðisaukaskattur á matvæli lækkaður töluvert. Það hefur haft sitt að segja til að hjálpa mjólk og öðrum matvælum í þessum samanburði. Menn höfðu líka verulegar áhyggjur af því, þegar tollar og vörugjöld voru afnumin af fatnaði, að það myndi ekki skila sér til neytenda, en samkeppnin sá greinilega til þess að það sat ekki eftir hjá kaupmönnum heldur fór út til neytenda.

Hv. þingmaður nefnir bensínsölu og samþjöppun á smásölumarkaði með matvöru. Það er alveg rétt að í okkar litla landi er fákeppni talsvert ráðandi. Þess vegna tel ég einmitt þeim mun mikilvægara að vera hér með öfluga og skilvirka samkeppnislöggjöf og beita henni miskunnarlaust til að halda slíkum fyrirtækjum í skefjum. Við erum alltaf að reyna að dansa línudans á milli hagræðis af stærri einingum sem í litlu landi þýðir óhjákvæmilega um leið að þær eru fáar. Við erum með á flestum stærri mörkuðum þrjá til fimm allsráðandi aðila líkt og í afurðastöðvunum í kjöti. Þess vegna held ég að það sé einmitt þeim mun mikilvægara að samkeppnislöggjöfin gildi sem og leikreglur samkeppninnar.

Það er síðan allt annað mál þegar kemur að landbúnaðinum sérstaklega. Ég er mikill aðdáandi íslenskra landbúnaðarvara. Ég (Forseti hringir.) tala óspart fyrir stuðningi við íslenskan landbúnað. Ég vil bara sjá samkeppni koma á móti þannig að neytendur njóti líka góðs af þeim stuðningi og þeim beinu fjármunum ríkisins sem við erum að beina inn í landbúnaðinn.