149. löggjafarþing — 57. fundur,  24. jan. 2019.

búvörulög.

295. mál
[17:09]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni og flutningsmanni andsvarið. Markaðir eru aldrei fullkomnir. Það er enginn markaður í lagi í okkar fákeppnisumhverfi sem er fullkominn á neinn mælikvarða. Ég get t.d. alveg tekið undir með hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni að samkeppni á eldsneytismarkaði er vafalítið ófullkomin. Ég horfi hins vegar til þess og segi: Ég þarf ekki og á ekki að þurfa að treysta einhverjum einstökum fyrirtækjum eða verslunum í þeirri samkeppni, ég treysti samkeppnisyfirvöldum til að fylgjast með þessum mörkuðum og grípa til aðgerða telji þau að fyrirtæki misbeiti með einhverjum hætti markaðsráðandi stöðu sinni, eins og t.d. á matvörumarkaði, þar sem er alveg rétt að samþjöppun er mjög mikil. Þess vegna hef ég aldrei skilið málflutning, t.d. forsvarsmanna í atvinnulífinu sem hallmæla Samkeppniseftirlitinu í þessum nákvæma tilgangi. Þarna á Samkeppniseftirlitið einmitt að sýna klærnar og vera mjög grimmt í eftirliti sínu, af því að þannig tryggjum við hagsmuni neytenda, að njóta þess í senn að stórfyrirtækin geti skilað okkur hagræði en það hagræði skili sér í lægra verði til neytenda. Það er það sem er kannski kjarni máls í málflutningi mínum.

Hv. þingmaður nefndi flutningsnet í raforku. Ég er ekki að andmæla núverandi kerfi. Ég tel augljóst hagræði í sameiginlegu flutningskerfi. Ég tel okkur hins vegar þurfa að vera miklu grimmari í eftirliti með flutningsfyrirtæki í einokunarstöðu um hvaða verð það rukkar. Ég held að við gætum verið grimmari þar og Orkustofnun t.d. skilvirkari í eftirliti sínu gagnvart verðhækkunaróskum þess sama fyrirtækis.

Ég segi, af því að á hinum endanum eru líka bændur í þessu samhengi, að ég held að það séu ekki þeirra hagsmunir að samþjöppunin verði þarna of mikil. Jafnvel þó að því sé gjarnan lýst á tyllidögum að bændur eigi afurðastöðvarnar (Forseti hringir.) sýnist mér jafnvægið þar á milli vera að afurðastöðvarnar fitni frekar en bændurnir.