149. löggjafarþing — 57. fundur,  24. jan. 2019.

búvörulög.

295. mál
[17:11]
Horfa

Flm. (Halla Signý Kristjánsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Víglundssyni fyrir svörin. Ég held að við náum ekki saman í þessum málum en það er gott að skiptast á skoðunum. Samkeppniseftirlitið hefur haft sitt um þetta að segja en ég veit ekki hver ávinningurinn hefur endilega verið af því. Hann hefur hvorki skilað sér til bænda né neytenda í þessum málum.

Við erum að tala sérstaklega um íslenska lambakjötið, sauðfjárræktina. Annað er náttúrlega hvað varðar samkeppni á öðrum vörum. Við erum ekki að fjalla um það og erum örugglega sammála að mörgu leyti í þeim efnum. En ég held að við séum að tryggja matvælaöryggið og lýðheilsu því að samkeppni lambakjötsins okkar snýr að innfluttri vöru. Við erum alltaf að fá fleiri ábendingar og varnaðarorð um að það sé vara sem er ekki af sömu gæðum og hér og ógni bæði lýðheilsu okkar og búfjárstofninum hér á landi. Allar leiðir sem við getum farið að því að tryggja matvælaöryggi okkar og lýðheilsu held ég að séu mikilvægar.

Hvað varðar verslunina treysti ég henni ekki endilega til að hún eða innflutningsaðilar tryggi innflutning á bestu gæðum af því að þeir eru kannski að hugsa um verðið og eðlilega eru þeir að hugsa um sinn hag af því að þeir eru á samkeppnismarkaði.

Ég hef svo sem ekki neina spurningu en hv. þm. Þorsteinn Víglundsson svaraði ekki hvernig hann ætlar að tryggja matvælaöryggið og lýðheilsu og (Forseti hringir.) hvaða skoðun hann hefur á þeim vinkli.