149. löggjafarþing — 57. fundur,  24. jan. 2019.

búvörulög.

295. mál
[17:21]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Hér ræðum við frumvarp til laga um breytingu á búvörulögum, með síðari breytingum, sem snýr að afurðastöðvum í kjötiðnaði. Með þessu frumvarpi er lögð til breyting á búvörulögum í því skyni að undanþiggja afurðastöðvar í kjötiðnaði ákvæðum samkeppnislaga.

Ég ætla að hnykkja aðeins á og vitna beint í greinargerðina með þessu frumvarpi. Hefst þá tilvitnun, með leyfi forseta:

„Tilgangurinn er að veita innlendum kjötiðnaði tækifæri til að hagræða og til að bregðast við ört vaxandi samkeppni að utan. Í alþjóðlegum samanburði eru innlendar afurðastöðvar í kjötiðnaði örsmáar og því ekki samkeppnishæfar við afurðastöðvar á erlendum mörkuðum sem eru mun stærri og hagkvæmari rekstrareiningar. Innlendur kjötiðnaður er engu síður í vaxandi samkeppni við afurðir frá erlendum mörkuðum. Afurðastöðvar í kjötiðnaði geta mjög takmarkað sameinast þar sem það er í andstöðu við ákvæði samkeppnislaga. Það skilar sér í of háum rekstrarkostnaði, háu verði til neytenda og lágu afurðaverði til bænda.

Þróun síðustu missera sýnir að innflutningur er að aukast umtalsvert og flutningsmenn þessa frumvarps telja að innlendir aðilar standi þar höllum fæti. Flutningsmenn telja nauðsynlegt að leggja til að afurðastöðvum verði heimilað að bregðast við samkeppninni neytendum og bændum til hagsbóta með því að auka hagræði í rekstrinum. Samkeppnin er við erlenda framleiðendur sem eru margfalt stærri en þeir sem hér er að finna. Með frumvarpinu er því lagt til að afurðastöðvar í kjötiðnaði verði undanþegnar ákvæðum samkeppnislaga en fyrir því eru fordæmi þar sem mjólkuriðnaður er samkvæmt búvörulögum undanþeginn ákvæðum samkeppnislaga. Enn fremur er lagt til að slíkir samningar um sameiningu, samkomulag um verkaskiptingu og samstarf verði lagðir fyrir ráðherra landbúnaðarmála til upplýsingar.“

Ég vil byrja á því að þakka 1. flutningsmanni, hv. þm. Höllu Signýju Kristjánsdóttur, kærlega fyrir góða yfirferð á þessu máli og fagna því að það sé hér fram komið.

Það er ljóst að íslenskur landbúnaður stendur á tímamótum. Áskoranir sem framleiðendur í kjötiðnaði, þ.e. bændur og afurðastöðvar, horfa fram á í dag eru margþættar. Mig langar til að fara yfir það og tína til flestar þær áskoranir sem þessar greinar og framleiðendur standa frammi fyrir.

Þar má nefna að núverandi tollasamningur við Evrópusambandið tók gildi 1. maí. Hann mun auka verulega samkeppni á innlendum markaði í náinni framtíð. Þá eru 97,4% af tollskránni í heild orðin algjörlega tollfrjáls ef flutt er inn frá ESB. Tæpur þriðjungur þess er stendur eftir er á lækkuðum tollum. Það sem eftir er ber toll, þó aðeins ef flutt er inn umfram kvóta sem eru tollfrjálsir samkvæmt ákvæðum samningsins.

Þarna finnst mér oft gæta töluverðs misskilnings.

Rétt er að halda því til haga að árið 2007 var samið við ESB um almenna 40% lækkun á tollum á kjöti. Sá samningur er nú hluti af þeim nýja.

Eins og alkunna er féll dómur EFTA-dómstólsins þann 14. nóvember sl. þar sem úrskurðað var að frystiskylda á innfluttu kjöti væri brot á EES-samningnum. Það kallar á mikla óvissu fyrir bændur og starfsumhverfi afurðastöðva í kjötiðnaði. Eitt er þó víst að ef ekkert verður aðhafst mun dómurinn hafa veruleg áhrif á innlenda kjötframleiðslu.

Endurskoðunarfyrirtækið Deloitte hefur metið tekjutap innlends landbúnaðar á bilinu 1,4–1,8 milljarða á ári, komi til þessa. Það er ljóst að markaðsbrestur er í útflutningi á kindakjöti og sér því miður ekki fyrir endann á því ástandi. Hér er um að ræða marga utanaðkomandi áhrifaþætti sem innlend framleiðsla hefur ekki verið í færum til að hafa áhrif á. Nefna má viðskiptastríð Evrópuríkjanna við Rússland vegna Úkraínudeilunnar, Brexit, gengisbreytingar og lokun markaða í Noregi.

Þá hefur afkomubrestur bænda vegna þessa í stuttu máli verið sá að raunverð til bænda hefur lækkað um 38% frá árinu 2015. Það er ekki víst að aðrar starfsstéttir í landinu myndu sætta sig við slíkt. Velvilji neytenda í garð innlendrar framleiðslu er ótvíræður en upprunamerkingar eru ónógar og ekki fylgt eftir af stjórnvöldum, einkum í veitingarekstri og þjónustu. Innlendir neytendur fá því ekki alltaf upplýsingar um hvaðan maturinn kemur jafnvel þó að þeir vilji það. Alltaf er borið við fjárskorti.

Þó vil ég nefna að ýmis fyrirtæki hafa virkilega lagt sig fram um að bæta þar um betur. Er hægt að tína til nokkur þeirra á norðausturhorninu, t.d. Fjallalamb, ef ég man rétt, og eflaust fleiri fyrirtæki sem fóru í það að upprunamerkja. Það er ákveðin trygging í því. Þá veit fólk hvaðan það fær matvælin, hver framleiðir o.s.frv. Það er líka hvatning fyrir hvern framleiðanda og hvern bónda að fylgja sinni vöru eftir og vita af þessum rekjanleika.

Að sama skapi er oft ekki nægilega skýrt tekin fram á markaði sú sérstaða sem innlend kjötframleiðsla býr svo sannarlega yfir, t.d. í krafti lítillar sýklalyfjanotkunar, lítillar varnarefnanotkunar, strangra velferðarreglna og strangra reglna um réttindi starfsfólks. Þetta er að mörgu leyti einstakt og við eigum að vera stolt af því. Aðbúnaðarkröfur gagnvart skepnum og kröfur til allra framleiðsluferla eru miklar hér og eiga að vera það. Ég hef hvergi heyrt bændur kveinka sér undan því eða ekki vilja fara að þeim reglum. Þetta er í góðu lagi hjá okkur og styður okkur í því að vera stolt af afurðum okkar. Við getum hvar sem er borið þær fram þar sem við vitum að þar er um heilnæma afurð að ræða.

Þá eru afurðastöðvarnar örlítil fyrirtæki miðað við sambærileg fyrirtæki í samkeppnislöndum, meira að segja ef við berum okkur saman við nágrannalönd okkar, Norðurlöndin. Það skekkir óneitanlega myndina að við erum í rauninni með örsmáar afurðastöðvar sem ekki eru í færum að keppa við stærri markaði. Það er ekki raunhæft að ætla þeim það.

Þá er önnur áskorun að víða um heim er sérstaða markaðar með kjöt viðurkennd svo markaðurinn er ekki látinn lúta samkeppnislögum að fullu, svo sem í Noregi. En einnig er að finna undanþáguheimildir í ESB, Nýja-Sjálandi og Bandaríkjunum svo eitthvað sé nefnt.

Þetta held ég að hver maður sjái sem fer að skoða þessi mál.

Þá er það svo að fyrirtækin eru mörg burðarás í atvinnulífi í sínu byggðarlagi. Bændur sem rækta búfénað til kjötframleiðslu geta ekki starfað án þeirra og þau ekki án bænda. Byggðaleg þýðing er því veruleg og ef annar þátturinn hverfur gerir hinn það í kjölfarið. Víða í hinum dreifðu byggðum og á ákveðnum svæðum um landið eru sauðfjárbúin t.d. hryggjarstykkið í byggðunum og halda uppi tengingu byggða. Atvinnulífið byggir á því.

Það má ekki vanmeta þann þátt í búskapnum líka um allt land. Sauðkindin tengir okkur sannarlega saman um allt land. Kóróna sköpunarverksins hefur ekki lítið hlutverk.

Við getum líka séð að t.d. í einu svínabúi í Eyjafirði hafa um 80–90 manns atvinnu við slátrun og vinnslu. Þetta er því fljótt að telja. Afleidd störf í landbúnaði eru um 11.000 Þetta skiptir okkur gríðarlega miklu máli á svo margan hátt. Öll viljum við hafa öflugt atvinnulíf um allt land og þetta er sannarlega þáttur í því.

En rekstur síðustu ára hefur verið þungur og fjárfesting og þróunargeta er lítil við núverandi aðstæður eins og sjá má í úttekt KPMG. Matvælaöryggi innlendu framleiðslunnar er gott og því má ekki tapa.

Þá kem ég að aftur að því að íslenskir bændur hafa náð öfundsverðum árangri í baráttu við kampýlóbakter í alifuglaafurðum, sem er til fyrirmyndar í Evrópu. Hvergi fer eins mikil skimun fram og hér og hvergi eru sömu skilyrði og hér þegar kemur að markaðssetningu afurða þar sem kampýlóbakter hefur greinst.

Hér er um alveg gríðarlega stórt lýðheilsumál að ræða og við megum ekki glopra niður þeirri stöðu sem við höfum í þeim efnum. Við verðum að hlusta á okkar færustu fræðimenn í þessum efnum sem vara okkur eindregið við því að raska jafnvæginu og glata þeirri stöðu sem við höfum náð, sem er svo mikilvæg og okkur svo dýrmæt. Við þurfum að hugsa um komandi kynslóðir og framtíðina. Okkur ber svo sannarlega skylda til þess.

Hæstv. forseti. Til að kjötframleiðsla geti tekist á við áskoranir sem blasa við þarf að koma nýr rammi um starfsemina. Annars er hætta á að næstu misseri dofni lífsandinn hjá fyrirtækjum, a.m.k. þeim sem ekki hafa fleiri stoðir að byggja á. Samkeppnin er raunverulega ekki lengur á milli innlendu fyrirtækjanna heldur við erlenda framleiðendur sem eru margfalt stærri, búa við allt aðrar framleiðsluaðstæður, önnur framleiðslutæki og í sumum tilfellum allt önnur starfsskilyrði. Íslenskur slátur- og kjötiðnaður verður að fá að þróast til aukinnar hagræðingar til að eiga möguleika á að standast harða harðnandi samkeppni á markaði. Við viljum örugglega öll að íslenskir neytendur geti notið heilnæmra afurða og þá helst frá eigin landi.

Ef ekki á að stofna þessari starfsemi í hættu þarf að koma til ný hugsun. Fyrirtækin þurfa að fá auknar heimildir til samstarfs í því skyni að lækka kostnað og minnka vistspor. Um leið er eðlilegt að gera auknar kröfur til þeirra á móti.

Nái þetta frumvarp fram að ganga og heimilað með lögum að fá undanþágur frá samkeppnislögum til að hagræða í sláturhúsum með yfirtökum, samruna, verkaskiptingu og samstarfi er lýtur að lækkun kostnaðar, bættri nýtingu, minna umhverfisfótspori og aukinni verðmætasköpun er ekki verið að tala um sams konar reglur og mjólkuriðnaðurinn hefur, enda er ekki verið að tala um opinbera verðstýringu í heildsölu. Undanþágan frá því að gripur er sóttur til bónda þar til kjötskrokkur er orðinn til — lögð er áhersla á að í því ferli verði leitað allra leiða til sparnaðar og hagræðingar. Full samkeppni verður áfram í heild- og smásölu með kjöt.

Frumvarp þetta myndi hafa þær afleiðingar að fyrirtækin gætu unnið saman að verkefnum eins og flutningi á sláturgripum, vinnslu, sölu og markaðssetningu hliðarafurða, vörudreifingu, þróunarverkefnum og öðru sem hefur skilgreindan ávinning í för með sér. KPMG-skýrslan dregur fram mikinn mun í sláturkostnaði og þar með hagræðingarmöguleika. Bara lækkun sláturkostnaðar úr hámarki í miðgildi má ætla sem 700 millj. kr. hagræðingu.

Samhliða því verður að tryggja að lítil þjónustu- og handverkssláturhús og kjötvinnslur geti starfað með sambærilegum hætti og áður, samanber hvernig gætt er að litlum mjólkurvinnslum í búvörulögum í dag. Forsendan er alltaf að samstarf leiði til hagræðingar. Sú hagræðing á að skila sér í sterkari fyrirtækjum sem geta betur staðist aukna samkeppni og sinnt betur þörfum neytenda. En það er ekki nóg. Tryggja verður að það hagræði sem næst skili sér líka til bænda og neytenda.

Hæstv. forseti. Hér er verk að vinna og ég vona svo sannarlega að þetta frumvarp nái fram að ganga og fái góða umfjöllun í þinginu. Ég hef orðið þess áskynja að hér gætir töluverðs velvilja í garð þess. Ég fagna því og þeim stuðningi sem menn hafa lýst yfir við þetta frumvarp. Matvælaframleiðslan og landbúnaðurinn eru okkur alveg gríðarlega mikilvæg í því stóra og víðfeðma landi sem við eigum. Öll tækifærin sem við höfum til matvælaframleiðslu hljóta að verða okkur sífellt dýrmætari í ljósi aðstæðna í veröldinni. Við þurfum ekki að líta lengra aftur en til síðasta sumars þegar uppskerubrestur varð á hinum Norðurlöndunum.

Nú þurfum við að nýta tækifærin. Við þurfum að hafa skýra ramma, halda vel utan um landbúnaðinn og efla það fólk sem enn er til í að stunda hann. Hér á landi búum við svo vel að við eigum fjölmarga vel menntaða, víðsýna og góða bændur sem eru í færum til að halda áfram að framleiða góð matvæli handa okkur og afkomendum okkar.

Það hlýtur alltaf að vera hlutverk stjórnvalda að standa með íslenskum landbúnaði og veita honum afl til að standast aukna samkeppni.

Mig langar til að nota tækifærið hér og minnast á mál sem þingflokkur Framsóknarflokksins er með í þinginu. Það er um opinber vistvæn innkaup sem lýtur að því að ríkið, sem er einn stærsti matvælakaupandinn og sá sem gefur flestum á borð á degi hverjum, líti til kolefnisspors þeirra matvæla sem framleidd eru. Það hlýtur að leiða að einu. Þá hlýtur sá matur að vera framleiddur sem næst neytandanum.

Ég vona innilega að þetta frumvarp fái góðan framgang hér í meðferð þingsins.