149. löggjafarþing — 58. fundur,  29. jan. 2019.

staða lýðræðislegra kosninga.

[13:34]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Nú í síðustu viku sendi Persónuvernd íslenskum stjórnvöldum erindi þar sem varað er við þeim hættum sem nú steðja að lýðræðislegum kosningum, m.a. vegna samfélagsmiðla víða um heim. Bréfið kemur í kjölfar funda persónuverndar Evrópu með Veru Jourová, dómsmálaráðherra Evrópu, þar sem hún varar eindregið við og segir að kosningar verði aldrei eins hér eftir. Skilaboðin eru mjög skýr. Það verða engar kosningar eins hér eftir. Við þekkjum dæmin: Trump, Bolsonaro, Brexit hafa hlotið framgang, orðið að veruleika að miklu leyti vegna hulduaðila í kosningum en líka vegna þess að þar hefur einfaldlega verið haldið á lofti röngum upplýsingum. Þetta vitum við. Hér á landi fjármögnuðu hulduaðilar auglýsingar í aðdraganda síðustu alþingiskosninga, hvort sem það voru íslenskir kjósendur, stjórnmálaflokkar, hagsmunaaðilar eða hreinlega erlend ríki. Það vitum við ekki.

Í fréttum Ríkisútvarpsins í síðustu viku var rætt við sérfræðinga í netöryggismálum. Þar kom fram að svokallaðir gervimenn fylgjast með þúsundum Íslendinga á Twitter. Þeir hafa ekki verið virkjaðir enn sem komið er til að gera eitt eða neitt, en þeir eru tilbúnir á hliðarlínunni og munu geta beitt sér. Hvernig vitum við ekki en þeir munu geta beitt sér. Það er það sem við vitum. Og fyrir tæpum tveimur vikum kom fram að Facebook lokaði á einum degi 364 síðum sem voru með tæplega 794.000 fylgjendur. Tilgangurinn var einfaldlega að hafa áhrif í ákveðnum löndum. Og þetta var bara á einum degi.

Nú eru rúm tvö ár í alþingiskosningar, kannski styttra. Ég spyr hæstv. forsætisráðherra: Hvað hyggst hún gera til að tryggja með sem bestum hætti að lýðræðinu steðji ekki hætta af þessum hulduaðilum, hvar sem þeir eru staddir í heiminum? Hvernig getum við komið í veg fyrir að þessir hulduaðilar, hverjir sem þeir eru og hvar sem þeir eru, fari að leika sér að lýðræðinu?