149. löggjafarþing — 58. fundur,  29. jan. 2019.

staða lýðræðislegra kosninga.

[13:39]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Ég þakka hæstv. forsætisráðherra kærlega fyrir svarið. Ég er sammála í mörgu. Ekki síst vil ég fagna því að það á að virkja þennan samráðsvettvang. Það þurfa fleiri að koma að. Samfélagsfyrirtækin, lögreglan, stjórnmálamenn, tæknigeirinn, háskólasamfélagið — en ekki síður þjóðaröryggisráð. Ég tel það líka mikilvægt. Ég hvet hæstv. forsætisráðherra til að setja nákvæmlega þetta mál á dagskrá okkar formanna þegar við hittumst næst því að við þurfum líka að fara yfir þessi mál.

Ég tel ljóst að framkvæmdastjórar flokkanna, sem við vitum alveg að eru einstaklega hæft og gott fólk, hafa ekki þau tæki nægilega í sínum höndum til að bægja burt þessari hættu. Stjórnmálasamtök? Auðvitað þurfum við að koma upp heildarlögum um stjórnmálaflokka. En hættan er að utanaðkomandi öfl nýti sér Ísland í einhverjum tilgangi sem við þekkjum ekki í dag. Við sjáum þetta annars staðar og þetta mun gerast hér heima líka. Þó að þeir geti vissulega verið tengdir einhverjum stjórnmálasamtökum er málið miklu stærra en eingöngu íslensku stjórnmálaflokkarnir þó að við eigum að sjálfsögðu að taka (Forseti hringir.) þá með inn í dæmið.

Ég hvet hæstv. forsætisráðherra til að taka þetta mál upp á samráðsfundi formanna flokkanna.