149. löggjafarþing — 58. fundur,  29. jan. 2019.

staða lýðræðislegra kosninga.

[13:40]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég er sammála hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur. Það er mikilvægt að ræða þetta víða. Þess vegna hef ég sett málið á dagskrá næsta fundar þjóðaröryggisráðs, sem fundar 18. febrúar. Þar verða þau mál sérstaklega á dagskrá.

Ég tek vel í þá tillögu hv. þingmanns að við ræðum málið líka á vettvangi formanna flokkanna. Ég held að máli skipti að við undirbúum þá umræðu vel og tökum málið til gagngerrar umræðu, t.d. undir liðnum önnur mál á reglulegum stjórnarskrárfundum formanna flokkanna.

En það er svo — og þetta er nokkuð sem við höfum til að mynda rætt á vettvangi norrænna forsætisráðherra — að alls staðar sjáum við eðlisbreytingu á pólitískri umræðu. Mjög víða, t.d. á Norðurlöndum, eru skýr dæmi um falsfréttir sem dreift hefur verið, ekki síst um innflytjendur og málefni innflytjenda. Þær fréttir eru ekki taldar koma utan frá heldur eiga sér uppsprettu heima í löndunum en byggja oft ekki á neinum staðreyndum og dreifast með ógnarhraða.

Staðreyndin er líka (Forseti hringir.) sú að falsfréttir sem dreifast höfða oft til tilfinninga. Þær byggja ekki endilega á rökum eða staðreyndum. Slíkar fréttir dreifast mun hraðar (Forseti hringir.) en þær fréttir sem við getum sagt að byggist á staðreyndum.

En þetta er mál sem við munum ræða á vettvangi stjórnmála. (Forseti hringir.) Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að taka til máls.