149. löggjafarþing — 58. fundur,  29. jan. 2019.

viðbótarframlag til SÁÁ.

[13:42]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Það var rétt fyrir jólin sem þingheimur samþykkti viðbótarfjárframlag til starfsemi SÁÁ upp á 150 millj. kr. Um leið og ég ætla að hæla hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir að taka virkilega sýnilega utan um málaflokkinn okkar veldur það mér ákveðnum áhyggjum að sjá að einhverra hluta vegna virðist forstjóri Sjúkratrygginga Íslands ekki vera nægjanlega vel upplýstur um að þær 150 milljónir voru eyrnamerktar SÁÁ, göngudeildum o.fl. Mig langar að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra nánar út í málið, því að það er alveg ljóst hvað þingheimur samþykkti fyrir jólin. Við vorum að taka utan um og reyna að koma til móts við þann mikla vanda sem var hjá SÁÁ. Við höfðum áhyggjur af stöðunni sem var uppi. Ég hef áhyggjur af starfseminni ef ekki verður staðið við framlagið sem var eyrnamerkt þeim því að fyrir liggur að á Vogi þarf að fækka um allt að 400 innlagnir á árinu og einnig þarf að loka göngudeildinni á Akureyri.

Ég spyr hæstv. heilbrigðisráðherra hvort við getum ekki staðið við framlagið og leiðrétt þann misskilning sem virðist vera á ferð, þannig að við þurfum ekki að fækka innlögnum á Vog um allt að 30–35 í hverjum einasta mánuði.